Hlutur túnfiskveiða og -vinnslu nemur árlega er meira en 42 milljörðum bandaríkjadala, eða sem samsvarar um 5.130 milljörðum íslenskra króna. Hér er ekki um neinar smáupphæðir að ræða enda gríðarlega miklir hagsmunir í húfi, bæði fjárhagslegir og frá sjónarmiði umhverfissinna.

Þetta er mat The Pew Charitable Trusts, óháðrar sjálfseignarstofnunar sem stofnuð var árið 1948. Samkvæmt niðurstöðum í skýrslu stofnunarinnar nemur andvirði þess sem túnfiskveiðimönnum er greitt árlega á bilinu 10 til 12 milljörðum dollara, 1.220 til 1.460 milljörðum íslenskra króna, en heildarverðmætið þegar afurðir hafa verið seldar í verslunum og veitingastöðum út um allan heim var a.m.k. 42 milljarðar dala árið 2014.

Samkvæmt skýrslunni var aflinn mestur í Kyrrahafinu og jafnframt verðmætastur og skilaði um 22 milljörðum dollara árið 2014. Svonefndur randatúnfiskur, sem oftast er að finna niðursoðinn í dósum, er uppistaðan í verðmætunum þótt bláuggatúnfiskur sé margfalt verðmætari tegund miðað við verð á kíló. Bláuggategundir skapa þannig að minnsta kosti 2 til 2,5 milljarða dollara árlega í heimsmarkaðsviðskiptum. Indónesar veiða mest af túnfiski allra þjóða í heiminum með rúm 600 þúsund tonn en Japanir koma þar á eftir með um 400 þúsund tonn.

„Það er engin launung á því að það eru blómleg viðskipti í kringum túnfisk,“ segir Amanda Nickson, yfirmaður fyrir túnfiskfriðunararmi The Pew Charitable Trusts. „Nú höfum við í fyrsta sinn getað lagt mat á það hvað er í húfi þegar kemur að friðun og sjálfbærum veiðum á túnfiski sem er jafnmikilvægt fyrir alþjóðaviðskipti og jafnvægi í umhverfinu.“ Hún bendir á að virði túnfiskiðnaðarins sé meira en þjóðarframleiðsla í það minnsta 108 þjóða.