Jón Gunnarsson, nýr ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála í innanríkisráðuneytinu, er bjartsýnn á að hægt yrði að fá einkaaðila í samfjármögnun með ríkinu til að koma vegakerfinu í kringum höfuðborgina í framtíðarhorfur. Það gæfi tækifæri til að nýta það fjármagn sem annars hefði farið í þessi verkefni í önnur brýn verkefni víða um land.

„Við lítum á þetta sem mögulega sameiginlega fjármögnun en við höfum komið á fót starfshópi sem á að skoða uppbyggingu á þessum vegum sem eru hvað umferðarþyngstir í kerfinu okkar auk þess sem þetta er auðvitað mikið umferðaröryggismál,“ segir Jón um hugmyndir um að taka upp gjaldtöku á helstu leiðunum í kringum höfuðborgarsvæðið.

„Af þessu yrðu einnig ruðningsáhrif sem ég kalla svo, en þá myndi losna um fjármagn sem annars þyrfti að binda í þessum leiðum og við gætum þá forgangsraðað því annars staðar.“

Sanngirni að ferðamenn leggi til uppbyggingar

Jón tekur undir að það séu einnig ákveðin sanngirnisrök í því að láta ferðamenn taka þátt í uppbyggingu vegakerfisins enda eru þeir sífellt stærri hluti notenda.

„Við erum fámenn þjóð í stóru landi og það hefur alltaf legið fyrir að það verði hlutfallslega dýrt fyrir okkur að byggja upp innviði eins og samgöngumannvirki, dreifikerfi raforku og fjarskipta, svo dæmi séu nefnd,“ segir Jón.

„Með gjaldtöku af umferð myndu erlendir ferðamenn leggja sitt til þessarar uppbyggingar. Þeir ferðast mikið á bílaleigubílum og myndu væntanlega greiða einskiptisgjöld, á meðan almennir notendur myndu greiða lægra gjald.

Þannig gæti þessi mikli ferðamannastraumur hjálpað okkur mjög í fjármögnun verkefna, verði þessi leið farin, en auðvitað er hann ekki síst að valda þessu mikla álagi á umferðarmannvirki okkar.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .