Bandarísk stjórnvöld hafa svipt öll skip útgerðarmannsins Carlos Rafael veiðileyfi , að minnsta kosti þangað til nýtt fiskveiðiár hefst í byrjun maí.

Rafael, sem iðulega er nefndur Codfather og hefur gert út frá Massachusetts, situr nú í fangelsi fyrir kvótasvindl sem hann játaði á sig fyrr á árinu. Varla nokkur dæmi eru um jafn alvarleg brot gegn fiskveiðistjórnarlögum Bandaríkjanna.

Á mánudaginn var öllum skipum útgerðarinnar gert að halda til hafnar án tafar. Búist er við að tugir sjómanna muni missa starfið og efnahagslegar afleiðingar þessara refsiaðgerða gegn útgerðinni verði nokkuð víðtækar í samfélaginu.