*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Innlent 16. febrúar 2018 10:16

Tvær vikur í mögulega uppsögn samninga

Forseti ASÍ segir spennu hlaðast upp innan verkalýðshreyfingar en enn séu ekki komin skýr svör frá stjórnvöldum.

Ritstjórn

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ segir að nú þegar einungis tvær vikur séu til mánaðarmóta, þegar taka þarf ákvörðun um hvort segja eigi upp kjarasamningum, sé vissulega ákveðin spenna að hlaðast upp að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Í samninganefnd ASÍ þurfa menn að ráða ráðum sínum og komast að niurstöðu um hvað menn vilja gera,“ sagði Gylfi spurður hvort spenna sé að hlaðast upp innan verkalýðshreyfingarinnar.

„Já, auðvitað er það að gerast, það er mjög eðlilegt, ekki síst vegna þess að tímapunkturinn er að nálgast og þá þarf að taka ákvörðun. Það leiðir til þess að menn þurfa að fara að horfa á málin raunhæfum og praktískum augum og meta stöðuna í baklandinu. Við það eitt verður meiri spenna, það er ljóst.“

Gylfi segir ákvörðunina verða tvíþætta, annars vegar þurfi meirihluti í samninganefnd ASÍ að vera sammála um niðurstöðuna og hins vegar þurfi meirihlutinn að hafa meirihluta félagsmanna að baki sér.

„Auðvitað eru miklar væntingar innan stéttarfélaganna um einhverjar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til þess að liðka fyrir gerð kjarasamninga,“ segir Gylfi sem segir hingað til ekki mikil svör hafa fengist frá stjórnvöldum.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá þá skilaði starfshópur um málefni kjararáðs skýrslu sinni um málið í gær. „Eitt er að glíma við forsendubrestinn en hitt er að svara því til hvers hann á að leiða. Enn hafa ekki fengist skýr svör við því.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim