Bandaríkin hafa aðeins tekið við 2.000 sýrlenskum flóttamönnum frá árinu 2011. Þetta er vegna þess að til þess að fá inngöngu í landið þarf flóttafólk að gangast undir langt skrifræðisferli sem getur tekið óralangan tíma.

Margir flóttamenn búa í sértilgreindum búðum árum saman áður en þessum ferlum lýkur. New York Times tók saman ferlið í heild sinni.

Í upphafi þarf flóttamaður að hafa skráð sig og farið í viðtal hjá fulltrúa Sameinuðu þjóðanna, sem þarf svo að útnefna einstaklinginn formlega flóttamann.

Því næst þarf flóttamaðurinn að fá tilvísun frá SÞ um tilfærslu til annars lands. Aðeins um 1% flóttafólks fær þessa formlegu tilvísun frá SÞ, eða allra brýnustu tilfellin.

Að því loknu hefst raunverulega reglugerðamergðin. Eftir að fara í viðtal gengst flóttamaðurinn undir þrefalda bakgrunnsskoðun, og í kjölfarið þrefalda fingrafararannsókn þar sem öll gögn flóttamannsins eru borin saman við gagnasöfn um afbrot og glæpasamtök.

Eftir fleiri viðtöl, stimpla og öryggiskannanir fer flóttafólkið svo í skoðun fyrir sjúkdóma og að lokum er það sett í menningarfræðsluáfanga um hvernig fólk hegðar sér í Bandaríkjunum.