Á þessu ári hefur Skúli Mogensen , eigandi WOW air , gert ýmislegt til að reyna að bæta eiginfjárstöðu WOW .

Í janúar breytti hann milljarðs króna láni Títan til WOW í hlutafé. Vefurinn Túristi.is greindi síðan frá því í vikunni að samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá á föstudaginn í síðustu viku hefði hlutafé félagsins verið aukið úr 107 milljónum hluta í 162 milljónir. Sú hlutafjáraukning var gerð þannig að Skúli lagði inn hlut sinn í félaginu Cargo Express . Engir peningar komu inn í félagið.

Í fjárfestakynningu WOW vegna skuldabréfaútboðs kemur fram að á fyrri hluta þessa árs hafi óefnislegar eignir félagsins numið 23 milljónum dollara, þar af er viðskiptavild (e. goodwill ) 18,4 milljónir dollara eða tæpir tveir milljarðar króna. Um áramótin voru óefnislegar eignir metnar á 4 milljónir dollara. Aukningin nemur því 19 milljónum dollara eða ríflega tveimur milljörðum króna.

Þrátt fyrir þetta hefur eigið fé félagsins lækkað úr um 40 milljónum dollara um áramótin í 20 milljónir samkvæmt sex mánaða uppgjöri þessa árs. WOW þarf því að bæta stöðu sína að þessu leyti því samkvæmt lýsingu á skuldabréfaútboðinu þarf eigið fá að nema að lágmarki 25 milljónum dollara. Þó vissulega sé erfitt að bera WOW og Icelandair saman þá má geta þess að eigið fé Icelandair nemur um 500 milljónum dollara. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var WOW komið með neikvætt eigið fé á fyrri hluta ársins og líklegt að lánardrottnar félagsins hafi krafist þess að úr því yrði bætt.

600 milljónir dollara

Vaxtaberandi skuldir WOW nema um 600 milljónum dollara eða 65 milljörðum króna samkvæmt fjárfestakynningunni. Ef skuldabréfaútboðið gengur vel og félagið fær 12 milljarða króna þá verða skuldirnar komnar í 77 milljarða. Við þetta bætist að í desember fær WOW fjórar nýjar Airbus A330 vélar en hver þeirra kostar um 100 milljónir dollara. Það þýðir að skuldirnar verða komnar í 120 milljarða króna og þá verður eiginfjárhlutfallið á bilinu 1,6% til 2,4% samkvæmt upplýsingum úr kynningunni. Þessar nýju vélar verða samt að öllum líkindum leigðar sem þýðir að skuldbingarnar færast ekki inn í efnahagsreikninginn fyrr en frá og með næstu áramótum.

Gjörólík staða flugfélaganna

Fjárhagsstaða íslensku flugfélaganna WOW air og Icelandair er gjörólík. Á sama tíma og eigið fé WOW er 20 milljónir dollara þá er það 500 milljónir dollara hjá Icelandair . Eiginfjárhlutfall WOW eftir sex mánaða uppgjör var 4,5% samanborið við 10,9% í árslok 2017 og 16% í byrjun árs 2017. Eiginfjárhlutfall Icelandair er 32%.

Handbært fé WOW air nam um sex milljónum dollara í lok júní eða um 660 milljónum íslenskra króna á meðan handbært fé Icelandair var 237 milljónir dollara eða 26,1 milljarður króna. Þessu til viðbótar hyggst Icelandair selja hótelstarfsemi sína en nettó bókfært virði eigna hótelrekstursins nam 76 milljónum dollara, um 8,4 milljörðum króna, í uppgjöri félagsins fyrir annan ársfjórðung.

Við þennan samanburð verður að hafa í huga að félögin eru ólík í eðli sínu. Icelandair hefur verið mjög íhaldssamt í sínum rekstri, svo íhaldssmat að sumum finnst um of á meðan WOW hefur lagt megináherslu á að vera kvikt og snöggt að taka ákvarðanir en í því endurspeglast bæði styrkur og veikleiki Skúla. Það sem WOW er umfram Icelandair eru að flotinn er nýr og flugvélarnar hagkvæmari en hjá Icelandair .

Tilkynningin í nóvember

Skuldabréfaútboðið kemur að ákveðnu leyti á óvart því í nóvember í fyrra tilkynnti WOW að að með sölu- og endurleigusamningi við flugvélaleiguna SKY Leasing á tveimur Airbus A321ceo-vélum væri fjármögnun félagsins tryggð út árið 2019.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er erfitt að meta hvað kjör WOW fær í útboðinu en reikna má með því að skuldabréfin muni bera nokkuð háa vexti. Ekkert veð er fyrir bréfunum þannig að ef allt fer á versta veg tekur eigandi WOW fallið, í dag er það Skúli. Viðskiptablaðið óskaði eftir viðtali við Skúla en Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW , sagði að það væri ekki mögulegt, Skúli myndi tjá sig um kynninguna og stöðu fyrirtækisins í lok þessa mánaðar.

Í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sagði Skúli að eiginfjárgrunnurinn væri lágur miðað við stærð félagsins og Wow þyrfti að styrkja stoðirnar. „Ég er því að horfast í augu við að til að halda áfram þessum vexti þá væri það of óábyrgt að styrkja stoðirnar ekki enn frekar heldur búa þannig um hlutina að við getum haldið áfram þó að það kæmi eldgos eða óvæntir atburðir,“ sagði Skúli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .