Útgerðarfélagið Brim hf. hagnaðist um 1,9 milljarða króna á síðasta ári. Tveggja milljarða viðsnúningur varð á rekstrinum en félagið tapaði 100 milljónum króna árið 2016.

Rekstrarhagnaður félagsins hækkaði úr tæplega 1,1 milljarði króna í 2,4 milljarða króna. Rekstrartekjur hækkuðu úr 18,7 milljörðum í 19,3 milljarða króna. Framlegð félagsins stóð þó nær óbreytt í 2,3 milljörðum króna. Mestu munar um liðinn aðrar tekjur í ársreikningnum sem hækkar úr 41 milljón króna í 1,2 milljarða króna milli áranna 2016 og 2017.

Eignir félagsins námu 60,7 milljörðum króna í árslok og hækkuðu um 1,7 milljarða króna milli ára. Þar af er ríflega þriðjungshlutur í Vinnslustöð Vestmannaeyja metinn á 11,5 milljarða króna. Í ársreikningnum kemur fram að stefnt sé að því að selja hlutinn. Eigið fé Brims nam 23,4 milljörðum króna um síðustu áramót en skuldir 36,4 milljörðum króna.

Félagið greiddi 295 milljónir króna í arð í fyrra vegna afkomu rekstrarársins 2016.