Sendiráðum Íslands í Vínarborg í Austurríki og Mapútó í Mósambík verður lokað ásamt því að starfsemi og þjónusta gagnvart 40 ríkjum og stofnunum munu færast til. Þar af færast ríflega 30 þeirra heim til Íslands í sparnaðarskyni.

Í kjölfar skýrslu um utanríkisþjónustu til framtíðar frá því í september hefur verið gefin út nýr forsetaúrskurður um sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiræðisskrifstofur sem tók gildi í dag að því er segir á vef stjórnarráðsins .

Skýrslan innihélt um 150 mismunandi tillögur en í úrskurðinum kemur fram að tveimur sendiráðum verður lokað ásamt því að tengsl við lykilríki í Afríku verði bætt. Munu sendiráð Íslands áfram verða í höfuðborgum þeirra ríkja sem mynda tæplega tvo þriðju hluta utanríkisviðskipta Íslands.

Starfsemin í Strassborg færist heim

Jafnframt verður tilfærsla á svokölluðu fyrirsvari gagnvart rúmlega 40 ríkjum, en þar af færast ríflega 30 þeirra heim í utanríkisráðuneytið. Þar á meðal fyrirsvar gagnvart Evrópuráðinu í Strassborg. Þar hefur verið stofnuð sérstök deild sendiherra með búsetu á Íslandi sem munu annast málefni gagnvart þessum ríkjum.

Þangað færist meðal annars fyrirsvar gagnvart Indónesíu, Malasíu og Singapúr, en tilgangurinn er sagður á vef stjórnarráðsins hvort tveggja að draga úr kostnaði með fækkun útsendra starfsmanna á nokkrum sendiskrifstofum á sama tíma og aukin áhersla er lögð á viðskiptahagsmuni í Asíu.

Jafnframt verður starfsemi sendiráðsins í Kampala, höfuðborg Uganda efld, enda Afríka sögð ört stækkandi markaður. Mun fyrirsvar gagnvart ýmsum ríkjum færast þangað úr bæði utanríkisráðuneytinu og sendiráði Íslands í París. Jafnframt mun sendiráðið gegna hlutverki fastanefndar gagnvart Afríkusambandinu í Addis Abbaba og Umhverfisstofnun SÞ í Nairobi.