Skólaárið 2015-2016 brautskráðust 10.883 nemendur úr skólum á Íslandi, bæði á framhalds- og háskólastigi. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. Brautskráðum nemendum fjölgaði um 276 eða 2,6% frá fyrra ári þegar þessi skólastig eru tekin saman.

Alls útskrifuðust 4.555 nemendur með 4.593 próf á háskóla- og doktorsstigi. Konur voru 65,6% þeirra sem luku háskólaprófi. Alls voru 2.753 brautskráningar vegna fyrstu háskólagráðu og brautskráningar með viðbótardiplómu voru 397. Þá voru 1.317 brautskráningar vegna meistaragráðu og 72 luku doktorsprófi. Doktorum hefur farið fjölgandi síðustu ár, og eingöngu skólaárið 2013-2014 hafa fleiri doktorar brautskráðst en þá voru þeir 84 talsins.

Fleiri stúdentar eru nú undir tvítugu. En alls útskrifuðust 3.421 stúdentar úr 34 skólum skólaárið 2015-2016, 172 fleiri en skólaárið á undan en svipaður fjöldi og 2012-2014. Konur voru 56,6% nýstúdenta. Hlutfall stúdenta af fjölda tvítugra var 73,3%.

Piltum meðal brautskráðra af framhaldsskólastigi fjölgar. En alls brautskráðust 5.748 nemendur af framhaldsskólastigi með 6.374 próf skólaárið 2015-2016, 103 fleiri en árið á undan en færri en árin 2011-2014.