Tveir umsækjendur sem sóttu um embætti seðlabankastjóra á dögunum hafa kvartað undan skipan Sigríðar Benediktsdóttur, hagfræðings og kennara við Yale-háskóla, í hæfnisnefnd sem mun meta hæfi umsækjendanna. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu .

Greint er frá því að annar þessara hafi verið Sturla Pálsson en hann og Sigríður störfuðu saman í Seðlabankanum á árunum 2011-2016. Sturla er framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabankanum og er meðal umsækjenda um embætti Seðlabankastjóra.

Gagnrýni umsækjendanna er sögð snúa að því að þeir telji það óheppilegt að Sigríður leiði hæfnisnefndina samhliða því sem hún sitji í bankaráði Landsbankans. Þar sem Landsbankinn sé stærsti viðskiptavinur Seðlabankans og eigi verulegra hagsmuna að gæta sem snúi að ýmsum ákvörðunum Seðlabankans.

Einnig kemur fram að innan bankaráðs Landsbankans gæti verulegrar óánægju með skipan Sigríðar í nefndina og er fundið að því að hún hafi samþykkt stöðuna án þess að bera það undir formann bankaráðsins.