*

mánudagur, 18. mars 2019
Innlent 7. júlí 2012 19:50

Tveir nýir Serrano staðir á þessu ári

Viðtal við stofnendur Serrano sem verður tíu ára í haust. Reka í dag tíu staði á Íslandi og í Svíþjóð.

Gísli Freyr Valdórsson
Haraldur Guðjónsson

Serrano-staðirnir er í dag tíu talsins, sex á Íslandi og fjórir í Svíþjóð. Þá er stefnt að því að opna einn stað í hvoru landi til viðbótar á þessu ári. Þetta kemur fram í viðtali við þá Einar Örn Einarsson og Emil Hjalta Lárusson í Viðskiptablaðinu.

Í Svíþjóð stendur til að opna í háskólaborginni Uppsala, sem yrði þá fyrsti staðurinn fyrir utan Stokkhólm, en hér á landi stendur til að opna stað í Spönginni auk þess sem leitað er að staðsetningu á Akureyri. Þá eiga þeir félagar jafnframt asíska veitingastaðinn Nam á Bíldshöfða sem opnaður var undir lok síðasta árs. 

Þeir Einar Örn og Emil Helgi eiga báðir 50% í félaginu sem heldur utan um reksturinn hér á landi, Serrano Ísland. Félagið hagnaðist um 12,5 m.kr. eftir skatta og fjármagnsliði árið 2010, sbr. við 4,8 m.kr. árið áður. 

Þá eiga þeir sinn hvorn 30% hlut í Serrano Nordics, sem heldur utan um reksturinn á Serrano í Svíþjóð, á móti 40% hlut eignarhaldsfélagsins Lindar, sem er í eigu Einars F. Kristinssonar (oft kenndur við Danól), föður Einars Arnar. 

Tap Serrano eftir fjármagnsliði og skatta nam árið 2010 3,6 m.kr., sbr. við tap upp á 3,9 m.kr. árið áður. Rétt er að taka fram að rekstur Serrano í Svíþjóð fór ekki að ganga vel fyrr en árið 2010 eins og fram kemur í viðtalinu. Lind ehf. fjármagnaði að mestu leyti upphaf Serrano í Svíþjóð en bókfært lán til Serrano Nordics nam tæpum 180 m.kr. í ársreikningi Lindar árið 2010. 

 

Í viðtali við Viðskiptablaðið fara þeir Einar Örn og Emil Helgi yfir farinn veg frá stofnun Serrano, erfiða byrjun í útrás, hvað það er sem gerir vörumerkið gott og framtíð félagsins. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðinum tölublöð hér að ofan.