Ráðgjafafyrirtækið Expectus hefur ráðið til sín tvo nýja starfsmenn. Þá Sigurjón Hákonarson tölvunarfræðing og grafíska hönnuðinn Stein Sigurðsson en báðir eru þeir SharePoint ráðgjafar.

Sigurjón er SharePoint ráðgjafi og stjórnandi SharePoint ráðgjafarteymisins hjá fyrirtækinu. Hann er með meistaragráðu í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og hefur áralanga reynslu af stefnumótun og stjórnun í upplýsingatækni. Helsta áhersla Sigurjóns er að ná samhljómi milli viðskiptaaðila og tækniaðila í innleiðingu upplýsingatæknikerfa, sem og að hafa skýr og mælanleg markmið. Áður starfaði hann sem viðskiptastjóri hjá Microsoft á Íslandi og sem forstöðumaður hugbúnaðarsviðs Íslandsbanka.

Steinn er SharePoint ráðgjafi og grafískur hönnuður. Hann er með menntun í upplýsingahögun og myndlist og hefur mikla þekkingu og reynslu af SharePoint. Samkvæmt tilkynningu hefur hann gott auga fyrir grafík og útliti og samtvinnar hönnun og notendavænt viðmót við nýjustu tækni og aðferðir á sínu sviði. Steinn starfaði um nokkurt skeið sem sjálfstæður SharePoint ráðgjafi áður en hann gekk til liðs við Expectus og stýrði veflausnateymum í fjármálageiranum í rúmlega áratug.

Í tilkynningu frá Expectus segir að upplýsingatæknisvið fyrirtækisins sérhæfi sig í að aðstoða stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja og stofnana í verkefnum tengdum viðskiptagreind, hugbúnaðarþróun og rekstri upplýsingakerfa.

"Expectus hefur þegar þá stöðu að vera eini gull vottaði samstarfsaðili (Gold Partner) Microsoft á Íslandi á sviði viðskiptagreindar (Business Intelligence) og nú er stefnan tekin á SharePoint ráðgjöf þar sem áhersla er lögð á fyrirtækjalausnir til hópavinnu, skilvirkni ferla og upplýsingaflæðis þar sem þarfir stjórnenda og starfsmanna eru hafðar í fyrirrúmi," segir í tilkynningu. "Aukin eftirspurn eftir SharePoint ráðgjöf og samþætting við viðskiptagreindarlausnir Expectus er ástæða þess að félagið hefur tekið þetta skref. Til að stýra þessari vinnu hefur félaginu borist öflugur liðsauki tveggja sérfræðinga í ráðgjafateymi sitt."