Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,21% í tæplega 874 milljóna króna viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1.627,24 krónum.

Þar af voru langsamlega mestu viðskiptin, eða fyrir 548 milljónir króna með bréf Haga, sem hækkuðu um 1,84% upp í 388 krónur hvert bréf. Það samsvarar 62,7% allra viðskipta í kauphöllinni í dag.

Var það jafnframt mesta hækkunin á bréfum í kauphöllinni, en næst mest hækkuðu bréf fasteignafélagsins Eik, eða um 1,75% upp í 8,12 krónur hvert bréf. Mesta lækkunin var hins vegar með bréf Eimskipafélagsins, eða um 1,16%, niður í 213 krónur hvert bréf, en í vart teljandi viðskiptum eða fyrir 7 milljónir króna.

Krónan lækkaði hins vegar gagnvart helstu viðskiptamyntum sínum í dag, mest gagnvart breska pundinu sem styrktist um 1,32% gagnvart krónunni og fæst hún nú á 154,12 krónur. Næst mest styrking var á gengi Bandaríkjadals, eða um 0,79% og fæst nú dalurinn á 120,14 krónur.