Ólafur segir að tveir dómarar í Hæstarétti hafi verið vanhæfir til meðferðar Al-Thani málsins. Annars vegar hafi Árni Kolbeinsson verið vanhæfur vegna þess að eiginkona hans, Sigríður Thorlacius, var varaformaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins meðan stofnunin hafði málið til rannsóknar, og hins vegar vegna þess að sonur hans, Kolbeinn Árnason, starfaði sem forstöðumaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings á árunum 2008-2013 og hefur samkvæmt tilkynningu frá Kaupþingi starfað sem ráðgjafi slitastjórnarinnar síðan. Verjandi Ólafs var upplýstur um fyrrnefndu tengslin við málsmeðferðina í Hæstarétti en ekki þau síðarnefndu.

Ólafur segir að eiginkona Árna hafi verið rannsakandi og kærandi í málinu og sonur hans yfirmaður lögfræðisviðs í Kaupþingi, sem telur sig vera tjónþola í málinu og hefur höfðað skaðabótamál á hendur mér vegna þess. „Síðan mér var ljóst hlutverk og staða Kolbeins, sonar Árna, hef ég verið mjög ósáttur“ segir Ólafur.

„Þegar Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari fær þetta mál svo til umsagnar þá eru hennar helstu rök þau að Kolbeinn hafi látið af störfum áður en faðir hans tók sæti í dóminum. Þó svo að hann hafi verið með ráðgjafasamning við slitastjórn Kaupþings þegar faðir hans kvað upp dóminn. En hver tók við af Kolbeini? Þórarinn Þorgeirsson. Hver er Þórarinn Þorgeirsson? Hann er sonur Þorgeirs Örlygssonar sem sat líka í dómnum. Hann er ennþá yfirmaður lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings. Það var því ekki bara Árni sem var vanhæfur, heldur var Þorgeir vanhæfur líka. Þetta eru sláandi stað- reyndir. Tveir feður hagsmunatengdra aðila sátu í dómnum þar sem synir þeirra voru tengdir málinu út frá störfum sínum og hugsanlega fjárhagslega.“

Ólafur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .