Nýskráningum í Nasdaq kauphöllinni á Íslandi hefur farið fjölgandi síðustu ár, eftir rólegt tímabil á hlutabréfamarkaði í kjölfar hrunsins. Adam Kostyál, yfirmaður skráninga á Norðurlöndunum og í Evrópu hjá kauphallarfyrirtækinu Nasdaq, segir frumútboðum og nýskráningum fyrirtækja að sama skapi hafa farið fjölgandi á alþjóðavísu, enda hafi aðstæður verið hagfelldar fyrir hlutabréfamarkaði.

Samhliða þeirri þróun hefur tvískráningum farið fjölgandi, en Kostyál segir að líta megi á það meira sem anga af auknum fjölda skráninga, heldur en sérstaka vinsældaaukningu tvískráninga sem slíkra. „Þróunin hefur því verið í þá átt að sífellt fleiri fyrirtæki sækja í skráða markaði og samhliða því hefur tvískráningum verið að fjölga.“

Veitir aðgang að stærra mengi fjárfesta
Tvískráningar evrópskra fyrirtækja beggja vegna Atlantshafsins hafa verið sérstaklega vinsælar, sem Kostyál segir skýrast af því að í Evrópu séu heimamarkaðir oft ekki nógu sterkir og þróaðir til að sjá vaxandi fyrirtækjum fyrir því fjármagni sem þau þurfi, en hann skiptir slíkum tvískráningum í tvo meginflokka.

Sum fyrirtæki sæki fyrst á skráðan markað í Bandaríkjunum og tvískrái síðar á heimamarkaði einnig, á meðan önnur skrá sig fyrst á heimamarkað og sækja í kjölfarið á skráðan markað í Bandaríkjunum. „Þetta gera þau annars vegar til að ná til víðari hóps fjárfesta og hins vegar til að ná til sérhæfðari fjárfesta.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .