„Þriðjungur af ritrýndum vísindagreinum sem eru birtar á landinu er frá starfsfólki Landspítalans, sem reyndar er oft líka starfsfólk Háskóla Íslands,“ segir Páll Matthíasson, en rætt var við hann í Viðskiptablaðinu í liðinni viku.

„Við höfum hins vegar séð að okkur hefur aðeins verið að förlast í þessu – það kemur fram í skýrslu frá því í fyrra og er áhyggjuefni en kemur ekki á óvart. Þegar verið er að kreista og það er sparnaðarkrafa ár hvert í fimmtán ár, þá verður eitthvað að gefa eftir. Ef þú neyðist til að velja læturðu vísindin frekar gefa eftir heldur en þjónustu við sjúklinga. En það er ekki gáfulegt og er áhyggjuefni. Okkar vísindastefna frá 2007 gerir ráð fyrir að 3% af rekstrarfé fari til Vísindasjóðs Landspítala og mótframlaga eins og eru í Háskólanum. Við erum núna innan við 1% og höfum aldrei haft bolmagn til að gera meira. Karolinska sjúkrahúsið setur á sama tíma 10% af sínu rekstrarfé í vísindastarf – fyrir utan allt sem stofnanir Karolinska gera.“

Undir lok viðtalsins sagðist Páll þurfa að láta gott heita og fara að sinna sjúklingum sínum. „Ég sinni ennþá sjúklingum á göngudeild og tek vaktir af og til. Ég tel það mikilvægt af ýmsum ástæðum. Ég hef varið mörgum árum í að ná ákveðinni færni og vil ekki missa hana, auk þess sem það þarf að sinna þessum sjúklingum. Svo er líka mikilvægt að vera í snertingu við starfið í framlínu, sem er það mikilvægasta hjá okkur. Við erum þekkingarvinnustaður og höfum markvisst reynt að halda mjög flötu skipuriti á spítalanum. Þannig eru á milli starfsmanns á gólfinu og forstjóra bara tvö lög – yfirlæknar eða deildarstjórar og framkvæmdastjóri meðan hjá sumum stærri stofnunum eru þau kannski sjö til níu. Þeir sem eru í framlínunni vita yfirleitt best hvernig á að veita þjónustuna og það þarf ekki margar silkihúfur til að þvælast fyrir því.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .