Sigurður Pétursson framkvæmdastjóri Arctic Sea Farm, dótturfélags Arctic Fish vonast eftir því að væntanleg leyfisveiting fyrir allt að 4.000 tonnum af laxi í eldiskvíum fyrirtækisins í Dýrafirði ryðji leiðina fyrir leyfi fyrir fullnýtingu 10.000 tonna burðargetu fjarðarins að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Skipulagsstofnun taldi ekki þörf á að stækkunin nú, sem er úr um 2.000 tonnum, fari í umhverfismat, en útgáfa leyfanna hefur tafist vegna m.a. kærumála en nú hefur Umhverfisstofnun gefið út starfsleyfi og því er von á rekstrarleyfi Matvælastofnunar á næstunni.

Helsti vandi fiskeldisins er hvað ferill leyfismála er ófyrirsjáanlegur og tekur langan tíma,“ segir Sigurður. „Það þarf fyrirsjáanleika því fyrst þarf að fjárfesta í seiðaeldi og það tekur sinn tíma.“ Fyrirtækið býður einnig eftir útgáfu rekstrar- og starfsleyfa fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði, en þar hyggst fyrirtækið vera með 6.800 tonna framleiðslu í samvinnu við Arnarlax.

Síðan er unnið að umhverfismati fyrir 4.000 tonna framleiðslu í Arnarfirði, en auk þess hefur fyrirtækið kynnt áform um 8.000 tonna framleiðslu í Ísafjarðardjúpi, en óvissa er um þau áform vegna tillagna um lokun djúpsins fyrir sjókvíaeldi.