Í desember síðastliðnum fóru ellefu flugfélög samtals 997 áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli. 548 áætlunarflug voru farin í desember 2012. Um er að ræða næstum því tvöföldun í fjölda áætlunarferða á þremur árum.

Icelandair var langumsvifamesta flugfélagið nýliðinn desember með um 63,8% áætlunarfluga samkvæmt umfjöllun Túrista . Hlutdeild annarra flugfélaga en Icelandair hefur þó meira en tvöfaldast frá desember 2012, en þá var hlutdeild Icelandair 83,4%.

Mestu munar um innreið easyJet en hlutdeild félagsins fór úr 1,8% í desember 2012 upp í 11,7% í desember 2015. Þá jókst hlutdeild WOW air úr 10% í 17,3% á tímabilinu.

Farþegatölur Keflavíkurflugvallar fyrir desember liggja ekki fyrir en 26% fleiri farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll á fyrstu 11 mánuðum síðasta árs en á fyrstu 11 mánuðum ársins 2014.