Í gær fjallaði Viðskiptablaðið um Twitter-síður ýmissa seðlabanka . Þá var einnig snert á því þeirri ráðgátu að Seðlabanki Íslands hefði stofnað til Twitter-aðgangs, en væri læstur og hefði aðeins einn fylgjanda.

Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri Seðlabankans hefur nú brugðist við fréttinni, en hann segir tíst-síðuna vera í vinnslu og ekki tilbúna enn. Í kjölfar fréttarinnar hafi þó tugir manns beðið um að fá aðgang að síðunni gegnum ‘Request follow’ hnappinn sem fylgir því að hafa læstan aðgang.

„Í kjölfar fréttar Viðskiptablaðsins um að seðlabankar væru vinsælir á Twitter og að Seðlabanki Íslands væri með læstan aðgang og einn fylgjanda hafa fjölmargir óskað eftir því að gerast fylgjendur að tíst-síðu Seðlabankans ,“ segir Stefán Jóhann.

„Umrædd síða Seðlabanka Íslands hefur verið í undirbúningi sem ekki er lokið og því er síðan ennþá læst og ekki opið fyrir fylgjendur að tengjast síðunni - fyrir utan þennan eina sem er tæknilegur umsjónarmaður verkefnisins.“

Þó styttist í að notendur samskiptamiðilsins geti fylgt Seðlabankanum. Þá mun tíst-síðan veita upplýsingar um athafnir og störf bankans. Boðið verður upp á íslenska sem og enska útgáfu.

Seðlabankinn mun hins vegar opna fyrir aðgang fljótlega og nota síðuna til að koma á framfæri upplýsingum og munu þá þeir sem óskað hafa eftir því að gerast fylgjendur bankans fá tíst-sendingar frá bankanum. Leið að íslenskum hluta Seðlabankatístsins verður um @sedlabanki_is og leið að enskum hluta verður @centralbank_is .“