Forsætisráðherra Tyrklands segir ríkisstjórnina ekki munu biðjast afsökunar á því að hafa skotið niður herflugvél Rússa á dögunum.

„Vernd tyrkneskrar lofthelgi er ein af okkar brýnustu varnarskyldum,“ sagði Ahmet Davutoglu, forsætisráðherra Tyrklands í ræðu í dag. „Her okkar vann sína vinnu, og engin þjóð getur krafist afsökunar okkar fyrir að sinna okkar störfum.“

Sambandið milli Ankara og Moskvu hefur farið sífellt versnandi síðan síðasta þriðjudag, en meðal annars hefur Vladimir Putín, forseti Rússlands, sett á laggirnar lög sem hamla rússneskum fyrirtækjum að ráða til sín tyrkneska starfsmenn í vinnu, auk þess sem hann klippti á frjálsar ferðir Tyrkja til og frá Rússlandi.

Málið atvikaðist svo að rússnesk þota af gerðinni Sukhoi Su-24 var skotin niður yfir Sýrlandi eftir að hafa að sögn tyrkneskra stjórnvala rofið lofthelgi Tyrklands.

Þá flugu tvær tyrkneskar F-16 þotur á eftir þeirri rússnesku og skutu hana til jarðar. Flugmennirnir rússnesku komust út í fallhlífum en annar þeirra lést af skothríð sýrlenskra uppreisnarmanna. Hinn flugmaðurinn er heill á húfi og snúinn aftur til Rússlands.

Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um málsvexti hér og hér .