Tyrkneska hagkerfið dróst saman um 1,8 prósent á þriðja ársfjórðungi og tyrkneska líran hefur snarlækkað í virði á sama tíma. Einnig hefur verðbólga verið talsverð. Það er í fyrsta sinn sem að samdráttur er þarlendis síðan 2009. Financial Times greinir frá.

Hagvöxtur var 5,9 prósent á þriðja ársfjórðungi síðasta árs og á fyrstu tveimur ársfjórðungum ársins 2016 nam hagvöxtur 4,5 prósent, samkvæmt Hagstofu Tyrklands.

Eftir að tölurnar um samdrátt tyrkneska hagkerfisins voru birtar, veiktist tyrkneska líran um 1,8 prósent gegn dollaranum. Hún hefur sjaldan verið eins lág. Líran er einn af þeim gjaldmiðlum sem hefur staðið sig hvað verst á árinu.

Samdrátturinn kemur í kjölfar mikils óstöðugleika í Tyrklandi. Til að mynda létust 38 manns í hryðjuverkaárás í miðri Istanbúl nýlega.

Aukinn þrýstingur er því á Seðlabanka Tyrklands um að lækka stýrivexti. Erdogan, Tyrklandsforseti, hefur ítrekað hvatt seðlabankann til þess að gera svo. Svar Erdogans við falli lírunnar hefur verið að biðja Tyrki um að skipta erlendum gjaldmiðli í lírur til þess að styrkja undir stoðir gjaldmiðilsins.