Deilisíðan Uber, þar sem notendur víða um heim, en þó ekki hér á Íslandi, geta pantað sér ferðir með bílum til hinna ýmsu áfangastaða, hyggst setja neyðarhnapp í aðalvalmynd smáforritsins.

Ákvörðun Dara Khosrowshahi, forstjóra fyrirtækisins kemur í kjölfar gagnrýni á forritið og þá sem veita þjónustu í gegnum það fyrir að veita ekki nægilegt öryggi. Öryggismál hafa til að mynda reglulega verið nefnd af hefðbundnum leigubílafyrirtækjum og öðrum sem hafa viljað standa gegn því að heimila rekstur fyrirtækjanna á mörkuðum sem hefðbundnari þjónustur hafa hingað til oft setið einar að.

Samband við neyðarlínu með einum smelli

Neyðarhnappurinn mun gera notendum þjónustunnar kleyft á að hringja beint í neyðarlínur viðkomandi lands með einum smelli ef eitthvað kemur upp meðan á ferðinni stendur. Verður hann staðsettur á áberandi stað í nýrri neyðarmiðstöð sem verður aðgengileg af forsíðu smáforritsins.

Í neyðarmiðstöðinni verða einnig upplýsingar um valferli fyrir bílstjóra sem veita þjónustu í gegnum appið, sem og leiðbeiningar fyrir farþega um hvernig þeir eigi að haga sér. Vefmiðillinn The Verge segir að sá listi sé í raun listi yfir þá hræðilegu hegðun sem gæti ollið því að notendum sé bannaður aðgangur að þjónustu fyrirtækisins.

Jafnframt verður hægt að útnefna fimm vini sem fái þá aðgang að staðsetningu notandans meðan á ferðinni stendur. Hins vegar er bent á það að líkurnar á að neyðarlínur geti fengið örugga miðun á staðsetningu notanda hratt séu allt niður í 10%.

Herða eftirlit með ökumönnum

„Við erum ekki fullkomin,“ sagði Khosrowshahi og vísaði í vandamál samfara miklum og hröðum vexti fyrirtækisins. „...en það er ekki afsökun, og stundum verður okkur á í messunni. En markmið okkar nú er að ná þessu rétt.“

Hyggst fyrirtækið jafnframt leggja til 350 þúsund Bandaríkjadali, eða tæplega 35 milljónir íslenska króna, í að bæta samskipti milli hinni þúsunda símhringimiðstöðva bandarísku neyðarlínunnar, ásamt því að þróa staðsetningartæknina í samstarfi við almannavarnir, fyrst um sinn í nokkrum tilraunaborgum.

„Ef notandi smellir á Uber neyðarhnappinn í einni af tilraunaborgum okkar, þá á staðsetning þeirra og allar upplýsingar um ferðina að fara sjálfkrafa til þess sem svarar neyðarsímtalinu.“

Jafnframt hyggst félagið herða á eftirliti með ökumönnum sem veita þjónustu í gegnum appið, með því að þeir verði að sýna fram á að þeir séu ekki á sakaskrá árlega, auk þess að hafa full ökuréttindi. Loks mun fyrirtækið kynna til sögunnar nýja tækni sem fylgist reglulega með nýjum brotum ökumanna, sem fengji þá tilkynningu fyrir öll helstu brot ökumanna.