*

föstudagur, 26. apríl 2019
Erlent 2. apríl 2018 14:03

Uber greiði keppinautnum skatt

Stjórnvöld í Washington vilja skattleggja deiliþjónustu eins og Uber og Lyft svo ekki dragi úr notkun almenningssamgangna.

Ritstjórn
Þinghúsið í Bandaríkjunum er ekki lengur hjarta stjórnsýlu borgarinnar, líkt og áður var, heldur hefur borgin nú fengið eigin stjórnsýslu.

Muriel E. Bowser, borgarstjóri í Washingtonborg, höfuðborg Bandaríkjanna, hefur boðað róttæka skattlagningu á deiliþjónustufyrirtæki sem hún segir að séu í samkeppni við almenningssamgöngur borgarinnar, til þess einmitt að niðurgreiða neðjanjarðarlestarkerfið sem hún segir að fari hnignandi vegna samkeppninnar frá deilihagkerfinu.

Í 14,5 milljarða Bandaríkjadala drögum af fjárlögum borgarinnar fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að 1% skattur á þjónustu fyrirtækja eins og Uber og Lyft muni hækka í 4,75%. Er það tæplega tvöfalt meiri en 2,5% gjaldið sem lagt er á hefðbundna leigubíla í borginni. Fjárlögin, sem jafngilda um 1.425 milljörðum íslenskra króna, eiga að taka gildi 1. október næstkomandi.

Hótaði 600% hækkun skattsins ef kvörtuðu

„Uber og Lyft eru hluti af samgöngukerfinu hér í borg, svo þau ættu að hjálpa til við að bjarga neðanjarðarlestarkerfinu, því þau eru að græða á hnignun þess,“ segir borgarstjórinn sem endurtók upphátt hótanir sínar til þeirra sem höfðu haft samband við hana vegna málsins fyrir hönd fyrirtækjanna.

„Ef þau eru að kvarta, segðu þeim að þau séu heppin að ég sé ekki að skattleggja þau um 6% - og kannski ég muni gera það.“
Í komandi fjárlögum borgarinnar er gert ráð fyrir að skattlagningin á keppinautum almenningssamgangnakerfisins muni greiða fyrir um tíunda hluta af 178,5 milljóna dala, eða sem jafngildir 17,5 milljarða króna, árlegum útgjöldum kerfisins.

Kemur sér verst fyrir láglaunafólk utan helsta þjónustukjarnans

Fleiri borgir í Bandaríkjunum leggja álíka sértæka skattlagningu á deilihagkerfið, og má þar nefna Chicago, Seattle og Portland auk Massachussetts ríkis. Svipaðar hugmyndir hafa einnig verið boðaðar í New York ríki, en í þeim er lagt upp með að í stað þess að rukka þjónustuna sjálfa verði rukkað fyrir að fara með farþega inn á Mannhattan eyju og önnur svæði í borginni þar sem er mikil umferð.

Fyrirtæki eins og Uber og Lyft bjóða upp á hvort tveggja einstaklingsferðir svipað og hefðbundnar leigubílaþjónustur, en einnig fasta keyrslu til og frá vinnu í hópbílum sem eru sérsniðnar að þörfum viðkomandi einstaklinga.

Samkvæmt Washington Post er skattlagningin talin koma sér sérstaklega illa fyrir notendur síðarnefndu þjónustunnar, sem er kölluð UberPool. Sú þjónust er ódýrari og hefur hún því verið vinsæl meðal láglaunafólks sem býr utan helstu þjónustusvæða almenningssamgangnakerfisins.

Stikkorð: Uber Lyft Muriel E. Bowser
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim