Þriðjudaginn 18. apríl næstkomandi verður haldinn stofnfundur nýs félags ungs áhugafólks um sjávarútveg í fyrirlestrarsal Sjávarútvegsráðuneytisins. Félagið hefur fengið nafnið UFSI og meðal hlutverka þess er að vekja áhuga meðal ungs fólks á sjávarútvegi.

Í tilkynningu frá UFSA kemur fram að stofnendur félagsins telji umræðuna um sjávarútvegsmál á Íslandi oft vera á villigötum og hyggst UFSI bæta úr því. Félagið mun meðal annars standa fyrir málfundum um málefni sjávarútvegsins og heimsóknum til fyrirtækja í greininni. Sérstök áhersla verður lögð á að starfa um land allt og endurspegla þannig fjölbreyttan hóp fólks sem starfar og hefur áhuga á sjávarútvegi óháð búsetu.

Hér má sjá fréttatilkynningu UFSA í heild sinni:

UFSI, félag ungs áhugafólks um sjávarútveg, er umræðuvettvangur um sjávarútveg og sjávarútvegsmál á Íslandi og úti í heimi. Við sem stöndum að stofnun félagsins teljum umræðuna um sjávarútvegsmál á Íslandi oft vera á villigötum og ekki til þess fallin að bæta ásýnd greinarinnar. UFSI mun hafa það að leiðarljósi að skapa málefnalega og óhlutdræga umræðu um greinina ásamt því að vekja áhuga meðal ungs fólks um sjávarútveg. Markmið UFSA er að vekja athygli á því starfi sem á sér stað í sjávarútvegi og tengdri starfsemi. Félagið mun meðal annars standa fyrir málfundum um málefni sjávarútvegsins og heimsóknum til fyrirtækja í greininni með það að markmiði að kynna atvinnuveginn fyrir ungu fólki og vekja athygli á þeim ólíku sjónarmiðum sem finna má innan greinarinnar. Félagið mun leggja sérstaka áherslu á að starfa um land allt og endurspegla þann fjölbreytta hóp fólks sem starfar og hefur áhuga á greininni óháð búsetu. Yfir 1.400 fyrirtæki starfa við sjávarútveg og haftengda starfsemi um allt land, því er af nægu að taka. UFSI boðar til stofnfundar þriðjudaginn 18. apríl klukkan 17:00 í fyrirlestrasal Sjávarútvegsráðuneytisins. Frekari upplýsingar má nálgast á Facebook síðu UFSA .