Þjóðverjar og Austurríkismenn hafa gagnrýnt öldungadeild bandaríska þingsins fyrir það að vilja herða viðskiptaþvinganir gegn Rússum og saka leiðtogar þjóðanna Bandaríkjamenn um að vilja leggja orkuframboð Evrópuþjóða í hættu. Fyrir tveimur dögum samþykkti bandaríska öldungardeildarþingið frumvarp sem á að refsa Rússum fyrir að hafa skipt sér að bandarísku þingkosningunum í fyrra.

Ef að frumvarpið verður samþykkt í neðri deild þingsins og af forsetanum Donald J. Trump, verður það að lögum. Lögin myndu meðal annars hafa áhrif á verkefni sem tengjast orkuinnflutningi Rússa til Evrópu, svo sem Nord Stream 2 gasleiðslunnar sem er nú í byggingu og á að uppfylla gasþarfir Evrópubúa. Rússar þurfa nú þegar að sæta viðskiptaþvingunum frá Vesturlöndum vegna innrásar þeirra í Úkraínu.

Neikvæð vídd í samskiptum Evrópu og Bandaríkjanna

Í sameiginlegri yfirlýsingu sem undirrituð var af utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel og kanslara Austurríkis Chirstian Kern, kemur fram að orkumál Evrópuþjóða væri í þeirra eigin höndum, en ekki í höndum Bandaríkjamanna. „Að hóta að leggja sektir á fyrirtæki Þýskalands, Austurríkis og annarra Evrópuríkja, ef þau taka þátt í verkefnum eins og Nord Stream 2 leiðslunni, eru til marks um nýja og neikvæða vídd í samskiptum Evrópu og Bandaríkjanna,“ segir í yfirlýsingunni.

Bætt var við að þvinganirnar snérust heldur um það að Bandaríkjamenn vildu í auknum mæli flytja út eigin gas til Evrópuþjóða, og vildu einfaldlega ýta Rússum út af evrópska markaðnum. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fyrrverandi forstjóri olíufyrirtækisins ExxonMobil Rex Tillerson, sagði síðastliðinn fimmtudag að hann hefði áhyggjur af viðskiptaþvingunum og vildi halda ákveðnum sveigjanleika í samskiptum við Rússa.

1.200 kílómetra ferlíki

Nord Stream 2 á að vera 1.200 kílómetrar á lengd og 120 sentimetrar í þvermál og á að liggja frá Vyborg í Rússlandi og til Greifswald í Þýskalandi. Fyrirtækið sem leggur leiðsluna ber nafnið Nord Stream og er í helmingseigu rússneska fyrirtækisins Gazprom, en evrópsk fyrirtæki eiga hinn helminginn. Nord Stream 1 leiðslan sem liggur sömuleiðis milli Rússlands og Þýskalands var tekin í notkun árið 2011. Búist er við því að að hægt verði að hefja flutning gassins til Þýskalands árið 2019. Þýsku fyrirtækin BASF og Wintershall, og austurrísku fyrirtækin OMV og Voestalpine og Shell taka þátt í bygginginunni.

Fyrrverandi kanslari Þýskalands, Gerhard Schröder, er stjórnarformaður fyrirtækisins Nord Stream AG, sem sér um byggingu rörsins. Gazprom leggur fram helming fjármagnsins. Búið er að leggja til 9,5 milljarða evra til verkefnsins af Gazprom og evrópsku fyrirtækjanna.