Seðlabanki Íslands hefur gert samkomulag við eigendur krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum. Í samkomulaginu felst að Seðlabankinn kaupir af þeim aflandskrónueignir að fjárhæð um 90 milljarðar króna á genginu 137,5 krónur á evru.

Aflandskrónueigendum sem ekki hafa gert samkomulag við bankann verður boðið að gera sams konar samninga á næstu tveimur vikum. Samkomulagið er gert á grundvelli heimildar Seðlabankans til slíkra viðskipta.

Kom þetta fram á fundi fjármálaráðherra og forsætisráðherra um afnám gjaldeyrishafta í dag.

Samkvæmt mati Seðlabankans námu aflandskrónueignir tæplega 200 milljörðum króna í lok febrúar. Eftir að viðskiptin sem nú hafa verið tilkynnt hafa gengið í gegn mun fjárhæð aflandskrónueigna sem eftir standa nema um 100 milljörðum króna.