Mokveiði hefur verið hjá ísfisktogaranum Gullveri NS sem Síldarvinnslan í Neskaupstað gerir út frá Seyðisfirði. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir veiðina hafa verið með miklum ágætum. Gullver landaði um síðustu helgi 106 tonnum á Seyðisfirði eftir fjögurra daga veiðiferð og var kominn á miðin aftur á mánudag.

„Þetta voru fjórir dagar úr höfn í höfn. Við vorum á þessum hefðbundnu heimamiðum. Við fengum ufsa hérna í Berufjarðarál og svo var eitthvert nudd af þorski og ýsu í Lónsbugt. Við kláruðum svo að taka þorskinn í Hvalbakshallinu. Það var fínasta veiði þar af góðum þorski. Þetta hefur verið svona undanfarinn mánuð, rúmlega 100 tonn eftir þrjá til fjóra daga. Við erum núna í túr númer 28 á árinu og þetta hefur bara gengið mjög vel það sem af er ári en auðvitað reyna svo miklar veiðar talsvert á mannskapinn,“ segir Þórhallur.

Fínasta veiði

Hann sagði að það hefði gefið vel á sjó yfirleitt en í mars kom þó smá kafli sem var dálítið tregt fiskirí. Annars hafi gengið mjög vel og fínasta veiði í apríl og maí. Þórhallur kvaðst ekki hafa hugmynd um hvað hefði fiskast á árinu en þeir á skrifstofunni væru örugglega með þær tölur á hreinu.

Það gekk ekki síður vel í fyrra þegar Gullverið fiskaði yfir 6.000 tonn á árinu. Þórhallur segir að það hafi líka verið besta árið frá upphafi. Hann sagði ómögulegt að spá í það hvort það met yrði slegið á þessu ári.

„Svo fer þetta svo mikið eftir því hvað við megum veiða. Við förum auk þess í þrjár vikur í slipp í sumar norður á Akureyri en það var reyndar stoppað líka í einn mánuð í fyrra þegar vélin var tekin upp.“

Gott ufsaverð

Gullver kom nýr til Seyðisfjarðar 1983 og var skipið smíðað í Noregi. Það er því orðið 36 ára gamalt. Þórhallur segir að því hafi hins vegar alltaf verið vel við haldið. Aðstaða fyrir áhöfn mætti þó vera betri en það kemur ekki mikið að sök þar sem túrarnir eru stuttir. Skipið er að skila á land úrvals hráefni sem er að mestu leyti unnið í fyrstihúsinu á Seyðisfirði og hjá ÚA á Akureyri. Undanfarið hefur mest af ufsanum og karfanum verið seldur óunninn í gámum til útlanda. Fínasta verð hafi verið á ufsa og eitthvað af honum hefur farið á markað.

„Við erum alla vega mjög sáttir við ufsaverðið sem við höfum verið að fá. Svo hefur verð á þorski aðeins stigið upp. Við vorum í mjög góðri ýsuveiði í janúar og fram í mars. Við fengum líka ýsu aðeins núna á Selvogsbanka en að öðru leyti hefur hún verið frekar treg.“

Þórhallur þakkar það góðri áhöfn, veiðarfærum og öllum búnaði hvað vel hefur tekist upp með veiðarnar. Kjarni áhafnarinnar hafi verið lengi og sumir jafnvel alveg frá því skipið kom. „Svo höfum við bara verið heppnir að hitta á eitthvað held ég,“ segir Þórhallur.