Klukkan 11.45 höfðu 17.700  manns skráð sig á síðuna arfgerd.is, þar sem einstaklingar geta óskað eftir upplýsingum um það hvort þeir beri stökkbreytinguna, 999del5 í BRCA2 erfðavísinum að því er segir í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu.

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum eru þeir sem bera arfberann í verulega aukinni hættu á að fá krabbamein, hvort sem það séu konur eða karlar þó líkurnar séu meiri fyrir konurnar. Síðan opnaði á hádegi í gær.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir að þótt viðtökurnar séu góðar sé mikilvægt að hafa í huga að heimasíðan sé einungis viðbragð við þeirri afstöðu starfshóps heilbrigðisráðuneytisins að ekki megi hafa samband við fólk í lífshættu að fyrra bragði, og vara það við, þannig að það geti gripið til fyrirbyggjandi aðgerða.

Segir viðhorf ráðuneytisins bjóða hættunni heim

Þetta segir hann vera algerlega óásættanlegt viðhorf og bjóði heim hættunni á því að fólk fari á mis við lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem hægt sé að veita.

Íslensk erfðagreining á dulkóðuð gögn um ríflega eittþúsund Íslendinga sem hafa sjúkdómsvaldandi stökkbreytingu í BRCA2-erfðavísinum, 86% líkur eru á að konur í þessum hópi fái krabbamein, en hlutfallið er ívið lægra meðal karla.

Allir geta skráð sig á síðuna og óskað eftir þessum upplýsingum sem gefið hafa blóðsýni í rannsóknir á vegum Íslenskrar erfðagreiningar. Þeir sem ekki hafa gefið slík sýni en óska eftir því að fá úr þessu skorið, geta pantað tíma í Þjónustumiðstöð rannsókna, í Turninum í Kópavogi og gefið blóðsýni sér að kostnaðarlausu.