Vöru- og þjónustujöfnuður dróst saman milli ára á þriðja ársfjórðungi um 30 milljarða króna að því er Hagstofan greinir frá . Þjónustujöfnuðurinn dróst saman um 5,2 milljarða milli ára á tímabilinu. Ef horft er á fyrstu níu mánuði ársins þróst vöru- og þjónustujöfnuðurinn saman um svipaða upphæð og á síðasta ársfjórðungi eða um 35,7 milljarða í heildina.

Hins vegar jókst þjónustujöfnuðurinn um 4,4 milljarða fyrstu níu mánuði ársins, en þar af var ferðaþjónustan stærsti liðurinn, eða sem nemur tæplega 75 milljarða afgangi af 220,4 milljörðum.

Úr rúmlega 100 milljörðum í 70

Samkvæmt bráðabirgðatölum var vöru- og þjónustujöfnuður á þriðja ársfjórðungi 2017, eins og hann birtist í þjóðhagsreikningum og greiðslujöfnuði, jákvæður um 70 milljarða króna en hann var jákvæður um 100,3 milljarða á sama tíma árið 2016, á gengi hvors árs.

Umreiknaður vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um 47,5 milljarða króna en þjónustujöfnuður var hagstæður um 117,5 milljarða. Heildarútflutningstekjur vegna vöru- og þjónustuviðskipta námu 354,5 milljörðum króna en heildarinnflutningur á vörum og þjónustu nam 284,4 milljörðum króna.

Í bráðabirgðatölum fyrir fyrstu þrjá ársfjórðunga ársins 2017 var vöru- og þjónustujöfnuður við útlönd því jákvæður um 92 milljarða en var jákvæður um 127,6 milljarða á sama tíma árið 2016.

Þjónustujöfnuðurinn jókst lítillega miðað við 9 mánaða tímabil

Heildartekjur af þjónustuútflutningi á þriðja ársfjórðungi 2017 voru, samkvæmt bráðabirgðatölum, 225,2 milljarðar króna en útgjöld vegna innfluttrar þjónustu 107,7 milljarðar. Þjónustujöfnuður við útlönd var því, eins og áður sagði, jákvæður um 117,5 milljarða króna en var jákvæður um 122,7 milljarða á sama tíma árið 2016 á gengi hvors árs.

Fyrstu þrjá ársfjórðunga 2017 var þjónustujöfnuður við útlönd jákvæður um 220,4 milljarða en var jákvæður um 216 milljarða á sama tíma árið 2016 á gengi hvors árs. Ferðaþjónusta var stærsti liðurinn í bæði inn- og útfluttri þjónustu á ársfjórðungnum og skilaði mestum afgangi, 74,9 milljörðum. Afgangur af samgöngum og flutningum nam 63,1 milljarði. Mestur halli var af annarri viðskiptaþjónustu eða 15,2 milljarðar.