Núna klukkan fjögur hefst árleg jólasamkoma Hjálpræðishersins þangað sem allir sem vilja halda upp á jólin en kannski geta það ekki sjálfir vegna efnis eða aðstæðna eða einfaldlega vilja gefa af sér og halda jólin með þeim sem eiga kannski ekki í mörg hús að vernda koma saman.

Herkastalinn seldur

Fyrir tæpu ári seldi Hjálpræðisherinn herkastalann þar sem herinn hefur haldið samkomur sínar og hjálparstarf þeirra fyrir þá sem eiga bágt í þjóðfélaginu hefur verið sinnt, en að þessu sinni fengu þeir inni í ráðhúsi Reykjavíkur með samkomu sína.

Herinn hyggst reisa nýjar höfuðstöðvar á lóð sem þeir fengu úthlutað í Sogamýrinni, eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um .

Borðhald klukkan 18:00

Viðskiptablaðið ræddi við Sigurð Ingimarsson starfsmann þar sem hann var á hlaupum við undirbúninginn. Segir hann fyrst í stað vera haldið eins konar jólaball en borðhald hefjist svo á hefðbundnum tíma klukkan 18:00.

Í húsinu eru nú þegar um 280 manns svo að nógu er að snúast, en mörg fyrirtæki hafa lagt hjálparhönd til að að þessu megi verða, og geta aðrir styrkt starf þeirra á heimasíðu samtakanna .

Jólagjöfum dreift eftir matinn

,,Þetta er í góðu samstarfi við borgina," sagði Sigurður, þegar Viðskiptablaðið kvaddi og var þá Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í þann mund að stíga á stokk og flytja erindi.

,,Síðan verður jólagjöfum dreift að loknu borðhaldi eins og alltaf."