Gera má ráð fyrir að um 2.500 íbúðir verði kláraðar í Kópavogi á tímabilinu 2016-2020. Kópavogsbær býst við að um 2.600-3.200 íbúðir verði byggðar í sveitarfélaginu til ársins 2022.

Helsta óvissan um uppbyggingu varðar framkvæmd eignarnámssáttar í Vatnsendahlíð sunnan íþróttahússins Kórsins, en þar er gert ráð fyrir uppbyggingu 650 íbúða. Gert er ráð fyrir um 800 íbúðum á þéttingarreitum og landfyllingu á Kársnesi og öðru eins sitt hvorum megin Reykjanesbrautar sunnan við Smáralind.

Nýtt hverfi við Vífilsstaði

Um 2.000 nýjar íbúðir eru væntanlegar í Garðabæ á tímabilinu. Íbúðir sem ýmist eru í byggingu í bænum eða sem byrjað verður á á þessu ári eru samtals um 700 talsins. Meirihluti þeirra er í Urriðaholti en uppbygging þar er skammt á veg komin. Gert er ráð fyrir að samtals verði um 1.600 íbúðir byggðar í hverfinu og að uppbyggingu ljúki á næstu fimm árum.

Aðalskipulag Garðabæjar er nú í vinnslu. Í drögum að skipulaginu er gert ráð fyrir um 1.400 íbúðum austan Reykjanesbrautar, í Hnoðraholti og á landi Vífilsstaða. Úthlutanir lóða gætu hafist 2018 og verður hverfið því líklega ekki langt komið á árinu 2020. Þá má gera ráð fyrir að íbúðum á Álftanesi verði fjölgað og hefur verið talað um 300 íbúða fjölgun í því sambandi, samkvæmt upplýsingum frá Garðabæ. Það jafngildir um 40% fjölgun íbúða á Álftanesi, en tímasetningar liggja ekki fyrir.

Samkvæmt þessu jafnast samanlögð fjölgun íbúða í Kópavogi og Garðabæ næstu fimm árin á við fjölgun íbúða í Reykjavík, þar sem ætla má að um 5.000 íbúðir verði byggðar á tímabilinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .