Stór hluti Íslendinga er með aðildarkort í Costco eða 71% að því er fram kemur í nýrri könnun MMR . Af þeim sem eru með aðildarkort í Costco ætla 60% að endurnýja aðildina þegar hún rennur út, 6% ætla ekki að endurnýja en heil 35% hafa ekki ákveðið sig.

Íslendingar sem tilheyra aldurshópnum 30-49 ára eru líklegri en aðrir aldurshópar til að vera með Costco aðildarkort eða 80%, samanborið við 58% í aldurshópnum 18-29 ára og 60% í elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri. Sami aldurshópur, það er 30 til 49 ára eru jafnframt líklegri en aðrir til að ætla að endurnýja aðildina.

Ekki er teljandi munur milli höfuðborgarbúa og landsbyggðarbúa eftir því hvort þeir ætli sér að endurnýja aðildina, eða 60% á móti 59%. En eins og gefur að skilja er hlutfall þeirra sem hafa kort hærra á höfuðborgarsvæðinu, eða 77% á móti 60% á landsbyggðinni.

Mesti munurinn á milli klofningsflokkanna

Ef aðildin er skoðuð eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk kýs sést athyglisverður munur milli kjósenda Miðflokksins og Framsóknarflokksins, en fyrrnefndi flokkurinn var stofnaður af fyrrverandi formanni þess síðarnefnda.

Eru stuðningsmenn Miðflokksins líklegastir til að vera með aðildarkort, en stuðningsfólk Framsóknarflokksins og Vinstri grænna ólíklegastir, eða 59% og 60%. Jafnframt eru stuðningsmenn síðarnefndu flokkanna ólíklegri en aðrir að ætla að endurnýja aðildina, eða 47% Framsóknarmanna og 54% Vinstri grænna.

Um þrír af hverjum fjórum stuðningsmönnum Viðreisnar, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru með kort en aðeins færri Píratar, eða 71%. Hinir síðastnefndu eru þó líklegastir til að ætla að endurnýja eða 73%. Ekki er munur á milli kynja eftir aðild og einungis 2 prósentustigum fleiri karlar en konur sem ætla að endurnýja aðildina.

Tekjulágir eru ólíklegri til að vera með kort en, um 49% þeirra sem eru með undir 250 þúsund eru með kort og 63% þeirra sem eru á bilinu 250 til 399 þúsund. Hins vegar eru þeir líklegastir til að vera með kort sem eru með 800 til milljón í laun, eða 83%. Hlutfallið lækkar síðan eilítið þegar komið er upp fyrir milljón, og er það þá komið niður í 80%.