Óhætt er að segja að ný íslensk auglýsing fyrir Samsung Galaxy S4 hafi vakið athygli, en á þeirri viku sem liðin er frá því að hún var birt á Youtube hafa ríflega 600.000 manns horft á auglýsinguna. Greinilegt er þó að ekki eru allir sáttir við boðskapinn í henni því á meðan tæplega 1.600 manns hafa „lækað“ hana á Youtube hafa tæplega 2.000 manns lýst yfir vanþóknun sinni á svipaðan hátt.

Ástæðan fyrir því hversu umdeild hún virðist vera er ekki flókin, því segja má að auglýsingin snúist ekki síður um meinta galla iPhone síma Apple og um kosti Samsung símans.

Í auglýsingunni sést ungur maður reyna að nota rautt epli eins og síma, en eins og gefur að skilja gengur það illa. Það er ekki fyrr en hann skiptir eplinu út fyrir Samsung síma að líf hans breytist til hins betra. Svo koma svartklæddir dansarar og íslensk sauðkind fyrir í auglýsingunni, eins og gengur og gerist.

Eins og gefur að skilja hafa erlendir miðlar átt í erfiðleikum með að skilja auglýsinguna íslensku, en fréttamaður tæknisíðunnar c|net gengur út frá því að boðskapurinn sé sá að iPhone símar virki ekki í íslensku fjalllendi á meðan Samsung símar breyti þér í ninju.

Horfa má á auglýsinguna hér fyrir neðan.