Sigurður R. Ragnarsson, sem tók við sem forstjóri hjá Íslenskum aðalverktökum frá ársbyrjun árið 2015, starfaði sem ráðgjafi í samgöngumálum landsins á árunum 1991-2006. Hann segir að umferðartafir hafi aukist um 40% í vegakerfi borgarinnar á þeim tíu árum sem ekkert hafi verið að gert síðan því uppbyggingarskeiði lauk.

„Á því tímabili var lyft grettistaki í gerð samgöngumannvirkja, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Frá austri til vesturs var Hringbrautin löguð við Snorrabraut, gatnamót við Skeiðarvog voru gerð mislæg, Ártúnsbrekkan tvöfölduð, mislæg gatnamót gerð við Höfðabakka, við Suðurlandsveg, við Húsasmiðjuna í Grafarvogi auk þess sem leiðin í gegnum Mosfellsbæ var breikkuð og Hvalfjarðargöng gerð.

Frá norðri til suðurs voru slaufurnar við Elliðaárnar lagaðar, mislæg gatnamót við Stekkjarbakka, í Mjódd, við Fífuhvammsveg, Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg. Reykjanesbrautin var tvöfölduð á þessum kafla og til Hafnarfjarðar og mislæg gatnamót gerð við Kaldárselsveg. Þá var Reykjanesbraut frá Straumi og að Fitjum tvöfölduð,“ telur Sigurður upp.

„Hvar værum við stödd nú ef það sjónarmið sem hefur heyrst, að það þýði ekkert að fara í áframhaldandi framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu af því að það leysi ekki vandann, hefði fengið að ráða? Nú, í um 10 ára skeið, hefur lítið sem ekkert gerst í þessum málum og litlum fjármunum verið varið í samgöngukerfið og viðhaldi ekki verið sinnt sem skyldi.

Afleiðingarnar eru þær að vegakerfið er að grotna niður auk þess sem umferðartafir í kerfinu á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist um 40% á þessum 10 árum. Margir af þeim stöðum sem nefndir voru áðan voru með þeim hættulegustu í umferðarkerfinu á þeim tíma með fjölda alvarlegra slysa og banaslysa sem nú hefur verið útrýmt.“

Vill allt að 8 milljarða árlega næstu 5-7 árin

Sigurður segir nauðsynlegt að gera átak í uppbyggingu innviða, líkt og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í blaðinu fyrir viku.

„Eins og fram kom í innviðaskýrslu Samtaka iðnaðarins, þar sem ég sit í stjórn og kynnt var fyrir jólin, þá kreppir skórinn á nokkrum stöðum í innviðum hér á landi, þá fyrst og fremst í vegakerfinu. Viðhaldi og uppbyggingu í vegakerfinu hefur ekki verið sinnt og þar þarf að gera átak til þess að mæta aukinni umferð á þjóðvegum landsins,“ segir Sigurður sem var þó ekki hlynntur hugmyndum um að flýta framkvæmdum með tollvegum í kringum borgina.

„Mér finnst svolítið sem stjórnmálamenn hafi gripið þetta sem einhverja allsherjarlausn á málinu á sama tíma og þeir notuðu hana til að teygja tímann. Það er búið að tala um þetta árum saman og það gerist ekki neitt, það er ekkert að gerast núna og það mun ekkert gerast, það er alveg ljóst. Á meðan grotnar vegakerfið okkar niður og hætturnar í því aukast. Þetta er ekki síst öryggismál, en mér stendur orðið uggur af því að keyra um þjóðvegi landsins, enda komnir margir ferðamenn á vegina sem eru ekki vanir því að keyra í hálku, snjó og byl og ráða ekki við vegakerfið eins og ástandið er á því nú. Á nokkrum stöðum er vegakerfið okkar beinlínis hættulegt.“

Sigurður segir ekki sanngirni í því að íbúar höfuðborgarinnar og nágrennis þurfi að greiða toll fyrir notkun samgöngumannvirkja, en ekki íbúar landsbyggðar fyrir uppbyggingu á sínum svæðum. Jafnvel þó að það myndi þýða að ferðamenn myndu taka þátt í kostnaðinum við uppbygginguna.

„Við höfum verið að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins, stytta biðraðir, kaupa tæki, hækka laun heilbrigðisstarfsmanna og við erum byrjaðir á nýjum Landsspítala o.s.frv. Núna er komið að því að stjórnmálamenn í þessu landi segi að röðin sé komin að innviðunum,“ segir Sigurður sem neitar því að hann sé þar að tala út frá hagsmunum síns fyrirtækis og atvinnugeira.

„Það þarf ekki gríðarlega mikla peninga til dæmis í það að klára tvöföldun vegarins til Keflavíkur, eða almennilegan veg á Selfoss. Framkvæmdin vestur á land með Sundabraut og tilheyrandi er svolítið stærri en það er bara komið að því að við setjum nokkra milljarða í þennan málaflokk næstu árin. Ef lagðir væru einhverjir sjö til átta milljarðar í þetta aukalega í fimm til sjö ár þá væri ástandið fljótt orðið allt annað.“

Stokkur hefði leyst nýtilkominn umferðarhnút meðfram miðbænum

Sigurður, var verkefnastjóri við uppbyggingu tónlistar- og ráðstefnuhússin Hörpu fyrstu árin sín hjá Íslenskum aðalverktökum.

„Harpa var mjög mikil áskorun í skipulagi og flæðisstjórnun svona framkvæmda. Það fylgir þeim svo mikið af efni, tækjum og tólum og þrengslin hafa áhrif á byggingatímann, kostnaðinn, afköstin og svo framvegis,“ segir Sigurður sem nefnir einnig áhrifin á umferðina í borginni sem hafi síðan versnað enn frekar með þeim verkefnum á svæðinu sem síðar tóku við.

„Ætlunin á sínum tíma var að byggja stokk sem átti að fara niður hjá Sjávarútvegsráðuneytinu og koma upp til móts við listasafnið, ekki langt frá Hamborgarabúllunni, og svo voru hugmyndir um að hafa hann lengri. Núna er búið að búa þarna til umferðarhnút sem var ekki til staðar áður. Frá byggðinni þar fyrir vestan, vesturbænum og Seltjarnarnesinu hafa íbúar einungis tvær leiðir til austurs, annars vegar Hringbrautina og svo þessa leið sem núna er búið að teppa og setja farartálma á. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir Sundabraut en ég var ráðgjafi við það verkefni í tíu ár.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .