Umferðin í fyrra jókst um 10,6 prósent sem er næstmesta aukning frá því að samantekt af þessu tagi hófst árið 2005. Undanfarin ár, eða síðan 2012, hefur umferðin aukist tvöfalt meira en að meðaltali síðan 2005 eða um 7,6 prósent meðan meðaltalið á ári yfir allt tímabilið er 3,4 prósent. Þetta kemur fram í upplýsingum frá Vegagerðinni.

Mest jókst umferðin um Suðurland eða um 15,5% en minnst jókst umferðin yfir mælisnið á Austurlandi eða um 8,6%. Fyrir einstaka mælisnið jókst umferð mest um Mýrdalssand eða um 24,4%. Mest var ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum á síðasta ári.

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 4,6 prósent fyrsta mánuð ársins 2018 frá sama mánuði fyrir ári síðan. Spálíkan umferðardeildar Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir því að miðað við það verði mun minni aukning í umferðinni í ár en í fyrra eða 3-4 prósent. Það er í takt við hagvaxtarspár en mikil fylgni er á milli umferðar á svæðinu og hagvaxtarins.