Hæstiréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms í meiðyrðamáli sem fyrrverandi gjaldkeri Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur höfðaði gegn fyrrverandi formanni félagsins.

Málavextir eru þeir að á aðalfundi félagsins í desemberlok 2013 dreifði formaðurinn blaði til félagsmanna þar sem hann fann ítrekað að störfum gjaldkerans. Sagði þar meðal annars að eiginkona gjaldkerans hafi fengið 150.000 króna sjúkradagpeninga án þess að vinna fyrir félagið og að bróðir gjaldkerans hafi einnig fengið greiðslur frá félaginu.

Í dómi Hæstaréttar segir að hin kærðu ummæli hafi verið byggð á bréfum endurskoðanda félagsins og gögnum úr bókhaldi þess.

„Svo sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi var leitt í ljós við meðferð málsins í héraði að ummælin voru í meginatriðum sönn. Engu breytir um það þótt áfrýjandi haldi því fram að laun, sem bókhald félagsins og upplýsingar til skattyfirvalda báru með sér að greidd hafi verið eiginkonu hans og bróður og stefndi vísaði til, hafi í raun verið hluti af launum sem áfrýjandi telur sig hafa átt rétt á fyrir störf sín sem gjaldkeri félagsins.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.“