Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir í ávarpi forstjóra í ársriti FME að þjóðfélagsumræðan sem spannst af því að tæplega þriðjungur hlutafjár Arion banka skipti nýverið um hendur var óvenju tilfinningarík.

„Ljóst er að Íslendingum er umhugað um að stjórnarhættir sem tíðkuðust í aðdraganda fjármálaáfallsins 2008 endurtaki sig ekki,“ tekur hún einnig fram. Erlendir fjárfestingarsjóðir keyptu eignarhlutinn af Kaupþingi en hún bendir á að fyrir Fjármálaeftirlitinu liggi það verkefni að meta hæfi þeirra til að eiga virka eignarhluti.

Slitabúin voru talin óhæf

Hún minnir á að slitabú Kaupþings og Glitnis voru á sínum tíma talin óhæf til að vera virkir eigendur en áttu eftir sem áður bankana að mestu leyti samkvæmt samkomulagi um uppgjör á milli stjórnvalda og kröfuhafa.

Þá var málið leyst samkvæmt þágildandi lögum með stofnun eignarhaldsfélaga sem báru ábyrgð á að bönkunum væri stjórnað í armslengdarfjarlægð frá eigendum þeirra.