Landsvirkjun og Norðurál Grundartangi ehf. hafa náð samkomulagi um að endurnýja raforkusamning fyrirtækjanna fyrir 161 MW á kjörum sem endurspegla raforkuverð á mörkuðum.

Samningsdrögin hafa verið send Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, til forskoðunar. Að henni lokinni er áformað að ljúka frágangi samningsins og senda hann til formlegrar og endanlegrar samþykktar hjá ESA.

Hinn endurnýjaði samningur er til fjögurra ára og hljóðar upp á 161 megavött sem er nærri þriðjungur af orkuþörf álvers Norðuráls á Grundartanga. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember 2019 og gildir til loka árs 2023. Núgildandi samningur verður áfram í gildi til loka október 2019.

Endurnýjaður samningur er tengdur við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.