*

laugardagur, 16. febrúar 2019
Innlent 5. september 2018 14:20

Umsvif Hringdu aukast

Bæði tekjur og eignir Hringdu jukust um tæp 30% í fyrra, en hagnaður og eigið fé drógust saman. Þá hækkuðu laun um fjórðung.

Ritstjórn
Játvarður Jökull Ingvarsson er framkvæmdastjóri Hringdu.
Aðsend mynd

Hagnaður fjarskiptafyrirtækisins Hringdu nam 40,2 milljónum króna á síðasta ári og dróst saman um tæpan fimmtung milli ára. Tekjur félagsins jukust um 28%, og námu 823 milljónum, en rekstrargjöld jukust um þriðjung.

Eignir félagsins jukust um 28% og námu 187 milljónum, en skuldir um rúman helming og námu 136 milljónum. Eigið fé dróst því saman um tæp 9% og nam 51 milljón, og eiginfjárhlutfall var 27%, en var 38% árið áður.

Meðalstarsfmannafjöldi félagsins 21,5 í fyrra, en 18 manns árið 2016. Greidd laun hækkuðu um tæpan fjórðung og námu 154 milljónum. Meðallaun námu því rétt tæpum 600 þúsund krónum á mánuði í fyrra, sem er 4,3% hækkun frá fyrra ári.

Stjórn félagsins leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2018 vegna rekstrarársins 2017.

Jón Von Tetzchner, fjárfestir og einn af stofnendum vafrans Opera, á rúman 70% hlut í Hringdu í gegn um eignarhaldsfélag sitt Dvorzak Ísland ehf.

Stikkorð: Hringdu