*

sunnudagur, 17. febrúar 2019
Innlent 4. desember 2014 18:45

„Umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi"

Fyrirhuguð sólarkísilverksmiðja yrði umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi samkvæmt minnisblaði ráðgjafafyrirtækis.

Trausti Hafliðason

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar óskaði eftir því við Environice (Umhverfisráðgjöf Íslands ehf.) að fyrirtækið legði óháð mat á umhverfislega áhættu sólarkísilverksmiðju Silicor Materials á Grundartanga. Í fyrradag var minnisblað frá Environice gert opinbert á heimasíðu sveitarfélagsins. Megin niðurstaðan er sú að starfseminni „fylgi ekki umhverfisleg áhætta umfram það sem fram kemur í fyrirspurn Silicor Materials til Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar og í ákvörðun Skipulagsstofnunar dags. 25. apríl 2014."

Niðurstaða Skipulagsstofnunar frá í apríl var sú að hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísli væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar miðaði við að verksmiðjan myndi ekki losa neitt flúor.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í síðustu viku eru skipulagsmál vegna verksmiðjunnar nú í uppnámi. Er það vegna þess að komið hefur ljós að ekki er hægt að útiloka að verksmiðjan losi flúor, nánar tiltekið kalsíumflúoríð.

Í minnisblaði Environice segir meðal annars: „Í stuttu máli virðist fyrirhuguð verksmiðja Silicor Materials á Grundartanga stefna í að verða umhverfisvænasta stóriðja á Íslandi til þessa, í það minnsta í venjulegum skilningi stóriðjuhugtaksins."

Sólarkísilverksmiðja Silicor Materials er risastór framkvæmd. Verði hún að veruleika er um að ræða stærstu einstöku fjárfestinguna hérlendis frá hruni. Heildarfjárfestingin hljóða upp á 750 milljónir dollara eða ríflega 90 milljarða króna. Ef verksmiðjan verður byggð mun hún skapa um 400 störf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.