Kjartan Már Kjartansson var skipaður bæjarstjóri Reykjanesbæjar, árið 2014 og óhætt er að fullyrða að hann hefur síðan þá gengið í gegnum mikla sviptingartíma á svæðinu.

Sveitarfélagið stendur þó enn frammi fyrir þeirri stóru áskorun að koma fjármálum sveitarfélagsins í lag en líkt og mikið var fjallað um í fjölmiðlum á sínum tíma leit á tímabili út fyrir að bænum yrði skipuð utanaðkomandi fjárhagsstjórn. Eins hefur mikið mætt á bæjarstjórnendum vegna starfsemi United Silicon í Helguvík, sem er að sögn Kjartans í engu samræmi við það sem fyrirtækið kynnti í upphafi. Segir hann að ef fyrirtækið bæti ekki úr starfsemi sinni muni bæjaryfirvöld fara fram á að verksmiðjunni verði lokað.

Stoppa starfsemina ef ástandið lagast ekki

Nú hefur mikið mætt á bæjaryfirvöldum að undanförnu vegna mengunar sem tengist kísilverksmiðjunni í Helguvík, hvaða augum lítur þú rekstur United Silicon á svæðinu og stöðu mála um þessar mundir?

„Ég vil horfa á þetta mál út frá þörfum Reykjaneshafnar, Helguvíkur. Þar veðjuðu menn á það að fara í uppbyggingu á góðri hafnaraðstöðu sem er djúp og með ágætri aðkomu og mikið autt land við höfnina. Þetta er einstök aðstaða í Evrópu og það er leitun að svona góðri höfn með svona mikið autt land í næsta nágrenni. Menn veðjuðu í fyrsta lagi á þetta og vildu fá fyrirtæki með hafnatengda starfsemi og stóriðja reyndist vera svarið á þeim tíma. Þegar þessi ákvörðun er skoðuð þá verður maður svolítið að setja sig í spor og hugarheim stjórnmálamanna á þeim tíma. Herinn var farinn, atvinnuleysi var mjög mikið, bankahrunið í gangi og menn litu á stóriðju sem rétta svarið. Eins og þetta var kynnt á sínum tíma þá átti ekki að vera nein mengun af þessu.

En þetta eru tíu ára gamlar ákvarðanir sem við erum að vinna eftir núna og þær snúa allar að því að skapa tekjur fyrir höfnina sem skuldar 7 milljarða króna og ef við fáum ekki tekjur fyrir hana þá getum við ekki greitt af þeim skuldum. Það er stóra málið. Ónæðið sem íbúarnir verða fyrir er mjög slæmt mál, en núna hafa stjórnendur United Silicon fengið til liðs við sig, að kröfu Umhverfisstofnunar, norska sérfræðinga sem hafa verið að gera úrbætur í mörgum tugum atriða. Og eftir að þeir gangsettu verksmiðjuna á ný þá hefur þetta verið að ganga betur en það vekur þó aftur upp spurninguna um hvort verksmiðjan hafi ekki verið fullbyggð þegar þeir byrjuðu Af hverju var þetta ekki svona strax í upphafi, fóru menn of fljótt af stað? Kannski var það tilfellið.“

Þannig að það er óhætt að segja að ferlið og starfsemin hafi ekki verið í samræmi við það sem fyrirtækið kynnti ykkur var kynnt á sínum tíma?

„Nei, það var það alls ekki og hefur ekki verið það í marga mánuði, en virðist vera að komast í betra horf núna.“

Þannig að þið eruð bjartsýn á framhaldið?

„Já við verðum að vera það en á sama tíma hef ég verið alveg skýr við stjórnendur United Silicon um það að þolinmæði okkar er svo sannarlega ekki endalaus. Ef þetta gengur ekki þá verður verksmiðjunni lokað, við munum ekki una við þetta svona um ókomna tíð.“

Viðtalið við Kjartan má lesa í heild sinn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.