Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, segir núverandi undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum eina af forsendum þess að hægt sé að stunda landbúnað víðs vegar um landið. Vilji fólk breyta umhverfinu verði það að skilja hvað sé verið að verja með undanþágunum og reyna að koma með tillögur um betri lausnir.

Á dögunum stóð Félag atvinnurekenda fyrir fundi með formönnum sjö flokka sem koma til með að vera í framboði í komandi alþingiskosningum. Á fundum beindi Ólafur M. Magnússon, framkvæmdastjóri Mjólkurbúsins KÚ, þeirri spurningu til frambjóðenda hvort þeir vilji afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. Samkvæmt lögum frá 2004 eru afurðarstöðvar í mjólk undanþegnar ákvæðum Samkeppnislaga um sameiningu fyrirtækja og samráð um verðlagningu og verkaskiptingu. Að öðru leyti gilda önnur ákvæði samkeppnislaga um Mjólkursamsöluna (MS).

Fimm fulltrúar stjórnmálaflokkanna sem sátu fyrir svörum sögðust vilja afnema undanþáguna. Þórunn Egilsdóttir, frambjóðandi Framsóknarflokksins, sagði hins vegar að flokkur hennar stefndi ekki að afnámi undanþágunnar og Kolbeinn Óttarsson Proppé, frambjóðandi VG, sagðist vilja taka afstöðu til málsins að betur ígrunduðu máli.

Undanþágan kostar Mjólkursamsöluna

Arnar segir fólk gjarnan misskilja umfang undanþágunnar og telja hana víðtækari en hún í raun er. Hann útilokar þó ekki breytingar á samkeppnisumhverfinu en telur þó alltaf að það verði að koma eitthvað annað í staðin. „Það hefði gjarnan mátt spyrja viðkomandi flokka hvort þeir viti í rauninni um hvað málið snýst þ.e. hvað sé verið að verja með undanþágunum. Þá hefði svarið sennilega orðið annað. Þetta er svolítið eins og umræðan um búvörusamningana sem margir hafa tjáð sig um en svo kemur í ljós að fólk er kannski ekki búið að setja sig fullkomlega inní málið. Það er enda skiljanlegt að mörgu leyti, þetta er flókið mál,“ segir Arnar og bendir á að MS hafi einnig ákveðnar skyldur.

„Það er nú þannig að undanþágan er ekki ókeypis fyrir MS og fyrirtækið hefur ákveðnar skyldur á móti. MS safnar mjólk á öllu landinu á sama verði, þ.e. það kostar jafn mikið að sækja mjólk í Eyjafjörð og á Rauðasand. Þá ber MS einnig ábyrgð á birgðastýringu mjólkurvara og þetta eru skyldur sem litlu vinnslurnar hafa ekki,“ útskýrir Arnar.

Eitthvað annað þarf alltaf að koma í staðinn

Arnar segir Mjólkurbúin Kú og Örnu vera gott framtak en bendir á að þau kaupi hrámjólk af MS og beri engan kostnað af mjólkursöfnuninni. Vegna þessa sé það ljóst að ef undanþágan yrði tekin, sem í sjálfu sér væri í lagi, þyrfti eitthvað annað að koma í staðinn. „Á meðan það er pólitísk samstaða um að stunda landbúnað á öllu landinu þá er þetta ein af forsendunum,“ segir Arnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.