Eigendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa samþykkt tillögu stjórnar um fjárhagsleg skilyrði fyrir því að arður verði greiddur til eigenda í framtíðinni.

Á meðal skilyrðanna eru að hlutfall arðs af hagnaði hvers árs sé í mesta lagi 50%. Þá eru ákveðin skilyrði um skuldsetningu félagsins, meðal annars að veltufjárhlutfall sé hærra en 1 og að eiginfjárhlutfall sé hærra en 35% á tímabilinu 2016-2018 en hærra en 40% eftir það.

Í tilkynningu er haft eftir Bjarna Bjarnasyni, forstjóra Orkuveitunnar, að samþykktin sé afar mikilvæg og að hún sýni hve eigendur Orkuveitu Reykjavíkur telji mikilvægt að tryggja góðan rekstur og traustan fjárhag OR til framtíðar. Sameiginlegt átak eigenda, stjórnar og starfsfólks hafi skilað því að markmiðum Plansins um bætta sjóðstöðu hafi verið náð á miðju árinu 2015, einu og hálfu ári á undan áætlun.

Greiða ekki arð á næsta ári

Orkuveita Reykjavíkur hefur ekki greitt eigendum sínum arð síðan árið 2010. Samkvæmt Planinu svokallaða, aðgerðaáætlun sem Orkuveitan hefur unnið eftir frá árinu 2011, er ekki greiddur arður á gildistíma þess sem er til ársloka 2016.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Bjarrni að ekki sé tilefni til að endurskoða þau áform, þrátt fyrir bætta sjóðstöðu Orkuveitunnar.