Undirbúningur er hafinn hjá Latabæ á framleiðslu á fjórðu seríu Latarbæjarþáttanna en tökur munu hefjast í mars á næsta ári. Áætlaður kostnaður vegna framleiðslunnar liggur á bilinu 1,5-1,7 milljarðar króna.

Þetta staðfestir Sigurður Stefánsson, fjármálastjóri Latabæjar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á 13 þætti í þriðju seríu þáttanna sem verður tekin til sýningar í vor. Áætlaður kostnaður við hvern þátt er rúmlega 100 milljónir króna. Að sögn Sigurðar verða framleiddir 13 þættir fyrir fjórðu seríu og þessu til viðbótar stefnir Latibær að því að framleiða sjónvarpskvikmynd í framhaldi af seríu fjögur á árinu 2013.

Að sögn Sigurðar má ætla að framleiðslan skapi um 200 störf á meðan á henni stendur til viðbótar við þá 30 starfsmenn sem þegar eru fastráðnir hjá Latabæ.

Nánar er fjalla um starfsemina í Latabæ og afkomu félagsins á síðasta ári í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.