Fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, hyggst leggja fram frumvarp í þessum mánuði sem miðar að því að lagfæra brottfararskattslög, þau sömu og ESA, eftirlitsstofnun EFTA gerði skriflega athugasemd við. Viðskiptablaðið fjallaði um málið hér.

Athugasemd ESA var á þá leið að tafarlaus brottfararskattur íslenska ríkisins sem lagður er á fyrirtæki sem hyggjast endurstaðsetja sig hjá öðru EES-ríki sé ólögmætur samkvæmt EES-samningnum. Þetta sé vegna þess að skatturinn er lagður á tafarlaust, og fyrirtækjum ekki gerður möguleiki á að biðja um greiðslufrest.

Einnig gerði ESA athugasemd við að þau fyrirtæki sem fengið hafa frest á skattgreiðslum á sama tíma og þau eiga í millilandasamruna neyðist til að leggja fram bankatryggingu fyrir frestuðu upphæðinni sé hún umfram 50 milljónir króna.

Í frumvarpi ráðherra verður lagt til að sé fyrir hendi tvísköttunarsamningur eða annar alþjóðasamningur um skattheimtu verði félagi ekki skylt að leggja til fyrrnefnda bankatryggingu.

Að sama lagi verður í frumvarpi ráðherra annað ákvæði um skattalega meðferð við skiptingu og tilfærslu hlutafélaga yfir landamæri. Með breytingunni sem lögð verður til mun vera komið til móts við athugasemdir ESA án þess þó að skattlagningarréttur ríkisins verði skertur, svo komið verði í veg fyrir skattasniðgöngu.