Allt stefnir í að heildarveltan hjá tæknifyrirtækinu 3X Technology á Ísafirði fari í fyrsta sinn yfir einn milljarð króna á þessu ári. Fyrirtækið hefur mikla markaðshlutdeild innan íslensks sjávarútvegs en hefur enn fremur haslað sér völl víða erlendis þaðan sem um 40%-50% teknanna koma. Þar leynast líka mikil tækifæri fyrir nýja tækni sem fyrirtækið hefur þróað.

Karl K. Ásgeirsson rekstrarstjóri segir að starfsemi 3X hverfist í kringum sjávarútveg. Með aukinni fjárfestingargetu greinarinnar hafi umsvif 3X einnig aukist.

„Við teljum að undirkælingarlausnir okkar boði nýja byltingu í sjávarútvegi," segir Karl. „Lausnin sparar gríðarlega orku og það er ódýrara að kæla með þessari aðferð. Hún kemur í veg fyrir flutninga og geymslu á ís því það er enginn ís notaður við kælinguna eða geymsluna. Við lengjum geymslutímann á afurðunum með þessari aðferð og þar með verður hægt að flytja meira magn í skipum og jafnvel í körum í stað frauðplastkassa."

Mikil tækifæri gætu leynst á þessu sviði og 3X hefur þróað þessa tækni í samstarfi við Matís og fleiri aðila og er brautryðjandi á sviðinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .