Í kröfum Starfsgreinasambandsins og VR er ýmislegt sem snýr að ríkisstjórninni. Auk þess að fara fram á breytingar á skattkerfinu krefst verkalýðshreyfingin þess meðal annars að vextir verði lækkaðir.

„Það er auðvitað mitt hlutverk að taka þátt í skattaumræðunni og í henni er mikið talað um persónuafslátt og skattleysismörk og þá fara menn jafnvel í samanburð við tíunda áratug síðustu aldar eða vísa jafnvel til upphafs staðgreiðslunnar 1988,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem kom út fyrir skömmu. „Ég er ekki endilega viss um að menn vilji fara í tímavél til þess tíma. Meðalverðbólga á 9. áratugnum var milli 30 og 40 prósent og nær 40 prósentunum. Við búum í allt öðru samfélagi í dag, þróaðra og betra.

Það er engu að síður rétt að persónuafslátturinn var mjög ríflegur við upphaf staðgreiðslunnar en þá voru settir saman allir frádráttarliðir í einn stofn og síðan fóru menn og fundu hvað prósentan ætti að vera há til að afla nægilegra tekna og hún varð há, tæp 36%. Ofan á allt þetta aflaði kerfið lægri tekna en hafði verið árin á undan og þeim sem greiddu skatt fækkaði og urðu um 49% framteljenda. Það var ekki sjálfbært kerfi og það tók langan tíma að vinda ofan af því. Við eigum að hætta að tala fjálglega um þau skattleysismörk. Þau eru einfaldlega hillingar. Menn verða líka að muna að fíllinn í herberginu var ekki bara hár persónuafsláttur og þar með skattleysismörk heldur líka há upphafsprósenta sem er sá veggur sem menn lenda á þegar farið er yfir mörkin.

Það vill oft gleymast að það hefur áhrif á hvata til vinnu. Það er rétt að með því að skattleysismörkin hafa ekki þróast í samræmi við kauplagsþróun hefur skattgreiðendum fjölgað en það var óhjákvæmilegt. Hversu langt eigi að ganga í því efni er viðfangsefni til framtíðar fyrir okkur.  Skattleysismörkin eru hærri hér í dag en annars staðar á Norðurlöndunum og voru langtum hærri við upphaf staðgreiðslunnar.“

Breiðu bökin

„Að undanþiggja stóran hóp framteljenda í að greiða tekjuskatt með þeim jöfnuði sem við búum við kostar himinháar prósentur fyrir þá sem eftir verða og ég er ekki viss um að breiðu bökin í landinu einfaldlega beri slíkt eða að það sé heppilegt fyrir þá letjandi hvata sem slíkt fyrirkomulag býr til. Hvað vextina varðar eru hlutirnir ekki þannig að menn geti komið með einhliða kröfugerð, þar sem þess er krafist að þeir lækki. Ég er reiðubúinn til þess að setjast niður með hverjum þeim sem hefur áhuga á lægri vöxtum, eins og ég, og ræða af fullri alvöru þá þætti sem raunverulega geta dregið úr spennu í hagkerfinu og þar með haft áhrif til vaxtalækkunar. Það vill nú þannig til að samningar á vinnumarkaði skipta gríðarlega miklu máli í þessu samhengi. Raunhæfir kjarasamningar og aðhald í opinberum fjármálum skapa grundvöll fyrir lækkun vaxta.“

Nánar má lesa um málið í bókinni 300 stærstu sem Frjáls verslun var að gefa út. Hægt er að kaupa bókina hér .