Sigurður Svavarsson rafvirkjameistari og eigandi Rafvirkja ehf. segir að nóg sé að gera nú um stundir.

Aukning í byggingariðnaði

„Við vinnum á breiðu sviði í rafvirkjabransanum, þannig að það er búið að vera nóg að gera. Aukningin núna verður eiginlega bara til þess að það eru fleiri verkefni sem við getum ekki tekið að okkur,“ segir Sigurður.

„Það er náttúrulega mikil aukning í nýbyggingum, en viðhaldsvinnan helst hins vegar stöðug. Reyndar erum við líka í viðhaldi á til dæmis byggingakrönum og ýmsu sem snýr að byggingariðnaðinum, annað heldur en akkúrat nýbyggingarlagnirnar sjálfar. Aukningin hefur verið þar líka og í öllu sem tengist byggingariðnaði.“

„Þetta svokallaða hrun“

Sigurður segir að það hafi verið í byrjun árs 2015 sem hann hafi farið að taka eftir aukningu í byggingariðnaðinum.

„Við erum líka í viðhaldsverkefnum en einnig í skipum og verkefnum tengdum útgerðinni sem og fraktskipum. Þeir liðir hafa verið með fullt af verkefnum þó að niðursveifla hafi verið í byggingariðnaði um tíma,“ segir Sigurður.

„Við erum með breytt svið, þannig að þegar þetta ástand skapaðist, þetta svokallaða hrun, þá jókst viðhaldsvinnan en innkaup á nýjum vörum minnkuðu í staðinn.“

Líklegri nú til að henda viðgerðarhæfri vöru

Sigurður nefnir þær afleiðingar hækkunar krónunnar að innlend vinna hækki í verði miðað við innfluttar vörur.

„Þá eru menn fljótari að henda vöru sem er kannski viðgerðarhæf, því að það borgar sig ekki lengur með hærra viðgerðarverði og lækkun innfluttra vara í íslenskum krónum,“ segir Sigurður sem segir að hörgull sé á fólki því margir úr greininni hafi farið út í vinnu.

„Það er ekkert fólk að fá. Fólk kemur ekki heim aftur einn, tveir og þrír, þó það sé kannski einhver aukning á því núna að það sé að koma aftur.“

Tekur því ekki að fá erlent vinnuafl

Sigurður segist hafa haldið sig við eigin mannskap og sé ekki að horfa á að fá erlent vinnuafl.

„Við höfum ekki hug að því að vera að fara á vinnuleigur til þess að fá svoleiðis starfsfólk til skamms tíma bara til að taka við fleiri verkefnum,“ segir Sigurður.

„Okkur finnst ekki taka því, það tekur alltaf tíma að þjálfa upp menn og láta þá starfa eftir okkar höfði. Þá er betra að halda sig við þau verkefni sem maður getur tekið við með þeim mannskap sem við erum með.“

Myndaðist gat sem tekur tíma að fylla

Sigurður, sem byrjaði með sína starfsemi 1990, segist allar götur síðan verið með eitthvað af lærlingum í vinnu hjá sér.

„Í rauninni vantar núna fleira fólk upp úr iðngreinum, eins og úr okkar iðngrein,“ segir Sigurður sem segir ákveðna stöðnun hafa orðið í iðnnámi við hrunið því nemar hafi ekki haft áhuga á að læra iðngrein sem gat ekki boðið upp á nema lítið af verkefnum.

„Þannig að það myndaðist gat sem tekur smá tíma að fylla aftur. Þó að aukning sé að myndast núna þá gerist það dálítið hægt, þú ungar ekki bara út nýjum mönnum eftir þörfum, það tekur dálítinn tíma.“