Um helmingur Íslendinga hafa áhyggjur af heilbrigðisþjónustunni og spillingu í fjármálum og eða í stjórnmálum landsins að því er fram kemur í nýrri könnun MMR.

Í könnuninni gátu svarendur merkt við allt að þrjú atriði, en fæstir merktu við hryðjuverk eða, 1,7%, aðgengi að lánsfé, 2,2% og atvinnuleysi 2,4%.

Önnur málefni sem þátttakendur lýstu yfir áhyggjum af voru:

  • Fátækt og/eða félagslegur ójöfnuður - 36,8%
  • Viðhald velferðarkerfisins - 23,8%
  • Loftslagsbreytingar - 16,8%
  • Uppgangur öfgaskoðana - 14,4%
  • Innflytjendamál - 14,2%
  • Siðferðishnignun - 13,5%
  • Menntun - 13,1%
  • Verðbólga - 11,9%
  • Glæpir og ofbeldi - 9,7%
  • Ofþyngd barna - 9,5%
  • Skattar - 9,3%
  • Ógnir gegn umhverfinu - 8,1%

Í rannsókn sem Ipsos gerði í nóvember síðastliðnum í 25 löndum kom í ljós að heilt yfir hafði fólk í þessum löndum mestar áhyggjur af atvinnuleysi eða 38%.

Nánast jafnmargir höfðu áhyggjur af fátækt og eða félagslegum ójöfnuði og spillingu í fjármálum og eða stjórnmálum, eða 34 og 33 prósent.

Ungverjar, Pólverjar og Brasilíubúar með sömu áhyggjur

Íbúar í Ungverjalandi, Póllandi og Brasilíu höfðu líkt og Íslendingar mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu í sínum löndum, eða 63%, 49% og 48% þeirra.

Nokkur munur reyndist á afstöðu milli lýðfræðilegra hópa Íslendinga, en konur höfðu meiri áhyggjur af heilbrigðisþjónustunni en karlar, eða 59% á móti 40%.

Landsbyggðarfólk meiri áhyggjur af fátækt

Færri konur höfðu þó áhyggjur af spillingu í fjármálum og eða stjórnmálum eða 45% þeirra á móti 53% karla. Jafnframt hafði yngra fólk minni áhyggjur af því, sem og af fátækt og eða félagslegum ójöfnuði, heldur en þeir sem eldri eru.

Fólk búsett á landsbyggðinni hafði þó meiri áhyggjur af hvoru tveggja, eða 55% af spillingu og 43% af fátækt meðan hlutföllin voru 45% og 33% meðal fólks á höfuðborgarsvæðinu.

Meðal námsmanna höfðu 60% þeirra áhyggjur af heilbrigðisþjónustu en einungis 32% þeirra sögðust hafa áhyggjur af spillingu.

Píratar áhyggjur af spillingu

Einnig reyndist munur eftir því hvaða stjórnmálaskoðanir menn hafa, en einungis 6% stuðningsmanna Framsóknar reyndust hafa áhyggjur af loftlagsmálum, samanborið við 25% stuðningsmanna Vinstri grænna. Höfðu stuðningsmenn Samfylkingar töluvert meiri áhyggjur af velferðarkerfinu en stuðningsmenn annarra flokka, eða 43% þeirra.

Stuðningsmenn Pírata höfðu töluverðar áhyggjur af spillingu eða 74% þeirra, meðan 26% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins höfðu þær áhyggjur.

Jafnframt höfðu einungis 19% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins áhyggjur af fátækt og eða félagslegum ójöfnuði, meðan 37% landsmanna í heild hafði þær áhyggjur.

Einnig höfðu 59% stuðningsmanna áhyggjur af heilbrigðisþjónustu í landinu samanborið við 33% stuðningsmanna Framsóknarflokksins.