Þrotabú United Silicon hefur stefnt endurskoðunarfyrirtækinu Ernst & Young sem sá um endurskoðun United Silicon og Stakksbrautar 9 ehf., en það félag rann inn í United Silicon á árinu 2014. Þrotabúið fer fram á bætur í málinu, en varnaraðili að málinu verði vísað frá dómi.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, snýst málið um aukið hlutafé í félaginu Stakksbraut 9 ehf., sem átti lóðina sem kísilver United Silicon í Helguvík reis á.

Samkvæmt gögnum sem send voru inn til fyrirtækjaskrár 23. september 2014, var hlutafé Stakksbrautar 9 ehf. hækkað tvívegis með staðfestingum frá endurskoðanda félagsins, sem starfar fyrir Ernst & Young.

Annars vegar var hlutafé Stakksbrautar 9 sagt hafa verið hækkað úr 500 þúsund krónum í 224 milljónir króna með skuldajöfnun við USI Holding B.V., eiganda fyrirtækisins í lok árs 2013. Hins vegar hafi hlutafé félagsins verið aukið með peningagreiðslu úr 224 milljónum í 673 eða um 449 milljónir króna að nafnvirði, en sú hlutafjáraukning er dagsett 24. september 2014, en var móttekin af fyrirtækjaskrá, 23. september, eða degi fyrr. Stakksbraut 9 átti lóðina sem kísilver United Silicon reis á, en seldi hana til félagsins Geysir Capital, á árinu 2014, samkvæmt ársreikningum félaganna. Geysir Capital, rann síðar inn í United Silicon.

Skoða fleiri mál gagnvart Magnúsi

Þrotabú United Silicon hefur höfðað tvö dómsmál gegn Magnúsi Garðarssyni, stofnanda félagsins. Annars var Magnúsi stefnt í ágúst vegna 71 milljónar króna sem Magnús er sagður hafa tekið út af bankareikning í Danmörku, sem var á nafni United Silicon. Þá hafði Magnúsi áður verið stefnt vegna meints hálfs milljarðs króna fjárdráttar úr félaginu. Magnús hefur einnig verið kærður til héraðssaksóknara vegna fjárdráttar úr félaginu.

Geir Gestsson, skiptastjóri United Silicon, segir fleiri mál vera til skoðunar gagnvart Magnúsi. „Við erum að skoða hvort hann kunni að hafa skapað sér skaðabótaskyldu,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .